Fjármálastjóri Páfagarðs ákærður

George Pell.
George Pell. AFP

Fjármálastjóri Páfagarðs, George Pell, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot í heimalandi sínu, Ástralíu. Um er að ræða brot fyrir áratugum síðan, segir lögreglan í Victoriu-ríki en Pell neitar sök.

Að sögn aðstoðarlögreglustjórans, Shane Patton, hafa fleiri en ein manneskja stigið fram og kært Pell fyrir kynferðislegt ofbeldi.

Pell kardínáli er þriðji valdamesti maður kaþólsku kirkjunnar, segir í frétt BBC. Þar kemur fram að Pell muni fara fljótlega til Ástralíu til að hreinsa nafn sitt, samkvæmt tilkynningu frá kaþólsku kirkjunni. 

Þar kemur fram að Pell fagni því að mæta fyrir rétt og verjast. Pell hefur verið mjög áberandi í umræðunni um ýmis hitamál innan kirkjunnar undanfarna tvo áratugi. Má þar nefna varðandi samkynhneigð, alnæmi og stofnfrumurannsóknir.

Hann hefur jafnframt annast opinber viðbrögð kaþólsku kirkjunnar við ásökunum um kynferðislegt ofbeldi innan kirkjunnar í Ástralíu. Þegar hann bar vitni í gegnum myndútsendingu frá Páfagarði í fyrra þá flugu nokkur fórnarlömb níðingsverka innan kirkjunnar í Ástralíu til Páfagarðs að fylgjast með. 

Lögreglan í Victoria segist hafa tekið ákvörðun um að kæra Pell eftir að hafa fengið ráðleggingar frá saksóknaraembættinu í síðasta mánuði. Um margvísleg brot er að ræða en ekki hefur verið upplýst opinberlega um hvað hann er nákvæmlega ákærður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert