Macron vill fækka þingmönnum um þriðjung

Emmanuel Macron vill að þingið fækki þingmönnum um þriðjung næsta …
Emmanuel Macron vill að þingið fækki þingmönnum um þriðjung næsta árið, annars láti hann þjóðina kjósa um málið. AFP

Emanuelle Macron, forseti Frakklands, tilkynnti í dag að hann hygðist fækka þingmönnum landsins um þriðjung. Sagði Macron að með þessu móti yrði stjórn landsins skilvirkari og Frakkland kæmist með þessu á nýja og róttæka braut.

Afgerandi sigur sinn í forseta- og þingkosningunum nú í ár sagði Macron veita sér víðtækt umboð til breytinga og ef þingheimur samþykkt þær ekki innan árs, þá muni hann leggja tillögur sínar í dóm þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu að því er BBC greinir frá.

Macron hét því að veita frönsku þjóðinni „sameiginlega reisn“ sína á ný. „Í gegnum tíðina þá hafa starfshættir haft forgang á árangur, reglur yfir frumkvæði og ríkisgreiðslur yfir réttlæti,“ sagði forsetinn í ræðu sinni.

Samkvæmt tillögu Macrons verður þingmönnum fulltrúadeildar fækkað úr 577 niður í 385 og öldungadeildarþingmönnum úr 348 í 232.

Macron tilkynnti einnig breytingar á kosningakerfinu þannig að fleiri raddir nái eyrum stjórnvalda, þá sagði hann neyðarlögin sem í gildi hafa verið í landinu frá því eftir hryðjuverkaárásirnar í París í lok árs 2015 verða felld úr gildi nú í haust.  

Macron valdi Versali, höll sólkonungsins Lúðvíks 14. til að flytja ræðu sína og hefur hlotið töluverða gagnrýni fyrir. Þó Macron sé ekki fyrsti forseti landsins til að velja Versali þá þykir valið vatn á myllu þeirra sem gagnrýnt hafa forsetann fyrir að vera fjarlægur og einræðislegur í háttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert