Hátt í 500 pólitískir fangar

Íbúar Venesúela fóru ránshendi um verslanir Maracay-borgar í síðustu viku.
Íbúar Venesúela fóru ránshendi um verslanir Maracay-borgar í síðustu viku. AFP

Herdómstóll Venesúela hefur ákært 27 háskólanemendur fyrir uppreisn gegn stjórnvöldum. Háskólanemendurnir voru handteknir á sunnudaginn síðastliðinn í UPEL-háskólanum í borginni Maracay eftir mótmæli gegn stjórn­ar­hátt­um Nicolás Maduro, for­seta lands­ins. Mótmælin hófust í apríl og hafa staðið látlaust yfir. 

Saksóknari hefur meðal annars ákært fólkið fyrir að hvetja til uppreisnar, fyrir skemmdarverk og þjófnað, að sögn Alfredo Romero, lögfræðings og starfsmanns mannréttindasamtakanna Foro Penal

Herdómstóllinn hefur einnig dæmt fimm konur í stofufangelsi eftir að þær voru hnepptar í varðhald fyrir sömu sakir, að sögn Romero. 

Samkvæmt mannréttindasamtökunum Foro Penal hefur fjöldi manns verið leiddur fyrir herdómstól landsins undanfarið eftir mótmæli síðustu þriggja mánaða. Talið er að að minnsta kosti 433 manns séu „pólitískir fangar“ í Venesúela eftir að mótmælin brutust út. Að minnsta kosti 89 manns hafa látið lífið í mótmælunum.  

Í síðustu viku ríkti ótti og glundroði í borginni Maracay þar sem fólkið var handtekið. Þar fór múgur ráns­hendi um göt­urn­ar og skildi eft­ir sig tóm­ar versl­an­ir og sært fólk. Lögreglan og her landsins reyndi að ná tökum á ástandinu og féllu bæði borgarar og lögreglumenn í þeim átökum.  

Frá mótmælum 1. júlí.
Frá mótmælum 1. júlí. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert