Geta borið stóra og þunga kjarnaodda

Flugskeyti skotið frá Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum hafa …
Flugskeyti skotið frá Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum hafa í dag svarað tilraun Norður-Kóreu með umfangsmiklum flugskeytaæfingum í Suður-Kóreu. AFP

Flugskeytið sem Norður-Kórea skaut á loft aðfaranótt þriðjudags, getur borið stóran og þungan kjarnaodd, samkvæmt upplýsingum norðurkóreskra ríkisfjölmiðla. Stjórnvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum hafa í dag svarað tilrauninni með umfangsmiklum flugskeytaæfingum í Suður-Kóreu, en Bandaríkin hafa nú staðfest að flaugin sem Norður-Kóreumenn skutu út í Japanshaf hafi verið langdræg.

Áður hafði verið sagt að um meðallangdræga flaug hefði verið að ræða, en BBC hefur nú eftir sérfræðingum að sumir þeirra telji flaugina geta náð allt til Alaska. Aðrir telja hins vegar flaugar Norður-Kóreumanna ekki enn búa yfir nægilegri nákvæmni til að hitta þau skotmörk sem þeim sé ætlað.

Rex Til­ler­son, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, sagði í gær eld­flauga- og kjarn­orku­tilraun­ir Norður-Kór­eu vera „nýja ógn við heim­inn“. Fundur verður haldinn fyrir luktum dyrum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag vegna málsins. 

Norðurkóreska ríkisfréttastöðin KCNA hafði í gær eftir Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, að flugskeytatilraunin væri „gjöf“ til Bandaríkjanna á þjóðhátíðardag þeirra, 4. júlí. Sagðist Kim hlæjandi þurfa að færa Bandaríkjunum fleiri slíkar gjafir svo þeim leiddist ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert