Beitum hervaldi ef nauðsyn krefur

Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, á fundi Öryggisráðsins.
Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, á fundi Öryggisráðsins. AFP

Bandaríkin munu beita herafli sínu gegn Norður-Kóreu ef nauðsyn ber til, þetta sagði Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, í kjölfar tilraunar Norður-Kóreu með langdræga eldflaug á þriðjudag.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um eldflaugatilraun Norður-Kóreu í gær og hefur BBC eftir Haley að ný samþykkt verði dregin upp gegn stjórnvöldum í Pyonyang. Sagði hún eldflaugarskotið vera til vitnis um hraða þróun í vopnavæðingu Norður-Kóreu.

Stjórnvöld í Pyongyang hafa hins vegar sagst ófús til samninga, nema Bandaríkin bindi endi á „fjandsamlega stefnu“ sína gegn Norður-Kóreu.

Bandaríkin og Suður-Kórea hafa í dag staðið fyrir um­fangs­mikl­um flug­skeytaæf­ing­um í Suður-Kór­eu, annan daginn í röð.

Und­an­farna mánuði hafa yf­ir­völd í Pyongyang ít­rekað gert kjarn­orku- og eld­flauga­til­raun­ir í trássi við bann Sameinuðu þjóðanna, sem hefur aukið spenn­una á Kór­eu­skaga.

Haley sagði þó til greina koma að beita Norður-Kóreu viðskiptaþvingunum og tók Angela Merkel Þýskalandskanslari í sama streng. Áður hafði Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýnt Kínverja á samskiptamiðlinum Twitter fyrir viðskiptasamband þeirra við Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert