Herinn við það að ná Mósúl á sitt vald

Íraskur hermaður í Mósúl.
Íraskur hermaður í Mósúl. AFP

Varnir liðsmanna hins svokallaða Ríkis íslams falla hratt í borginni Mósúl í Írak og búist er við að íraskir hermenn muni ná henni á sitt vald innan nokkurra klukkustunda. 

Þetta kemur fram á vef BBC og er vísað til þess sem íraska ríkissjónvarpið hefur greint frá.

Haft er er eftir fréttamanni á svæðinu að herinn eigi aðeins eftir að ná örfáum metrum aftur á sitt vald. 

Bardagar og átök hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar í …
Bardagar og átök hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar í borginni. AFP

Íraskir sérsveitarmenn hafa sést dansa á götum borginnar þrátt fyrir að yfirmenn þeirra hafi ekki enn staðfest tíðindin. Aðgerðir hersins, sem hefur notið stuðnings Bandaríkjahers úr lofti, hafa staðið yfir frá því 17. október í fyrra. 

Ríkisstjórn Íraks greindi frá því í janúar að herinn hefði náð austurhluta Mósúl aftur á sitt vald í janúar. Erfiðara hefur hins vegar reynst að ná vesturhlutanum, en þar eru margar þröngar götur og erfitt að athafna sig.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að liðsmenn Ríkis íslams hafi haldið rúmlega 100.000 almennum borgurum föngnum í borginni og notað þá sem mannlega skildi. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert