Elsti flóðhestur heims dauður

Bertha var elsti flóðhestur heims.
Bertha var elsti flóðhestur heims. Ljósmynd/Instagram

Elsti flóðhestur heims er dauður, 65 ára að aldri. Flóðhesturinn hét Bertha og bjó í Manila-dýragarðinum á Filippseyjum, en hún náði mjög háum aldri fyrir flóðhest, þeir verða yfirleitt ekki eldri en 40-50 ára.

Þetta kemur fram í frétt AFP-fréttastofunnar, en þar segir að 2,5 tonna flóðhesturinn hafi fundist dauður í dýragarðinum á föstudag. Leiddi krufning í ljós að Bertha hafði drepist úr líffærabilun.

„Bertha var eitt af frumkvöðladýrunum hér,“ er haft eftir James Dichaves, dýragarðsstjóranum. „Maki hennar drapst í kringum 1980 og þau eignuðust aldrei nein afkvæmi.“

Bertha kom í dýragarðinn sjö ára gömul 1959, árið sem hann opnaði. Hún lifði á grasi, ávöxtum og brauði.

Flóðhesturinn Donna var áður talin hafa náð hæstum aldri, eða 62 árum. Hún drapst árið 2012 í dýragarði í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert