Merkel hvetur Kína til að sýna Liu mannúð

Steffen Seibert, talsmaður Merkel, sagði á blaðamannafundi í Berlín að …
Steffen Seibert, talsmaður Merkel, sagði á blaðamannafundi í Berlín að Merkel þætti ástandið „niðurdrepandi“. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvetur kínverska ríkisstjórn til „að sýna mannúð“ vegna meðferðar hennar á dauðvona friðarverðlaunahafa Nóbels, Liu Xiaobo. Kínversk yfirvöld hafa hingað til neitað að leyfa andófsmanninum að fara utan til að fá viðeigandi líknarmeðferð. Fyrir það hefur alþjóðasamfélagið gagnrýnt kínversk stjórnvöld. 

Eftir læknisskoðun Xiaobo gáfu læknar frá Bandaríkjunum og Þýskalandi út yfirlýsingu þar sem þeir sögðu hann færan um að ferðast til að fá meðferð sem hann hafi óskað eftir. Aftur á móti hafa kínverskir leiðtogar hingað til hunsað slíkar óskir og segja Xiaobo enn of veikan til að ferðast til annarra landa og hljóta þar viðeigandi meðferð. 

Frétt mbl.is: Er­lend­ir sér­fræðing­ar fá að meðhöndla Liu

Alþjóðasamfélagið fordæmir meðferð kínverskra yfirvalda á Liu, sem er einn …
Alþjóðasamfélagið fordæmir meðferð kínverskra yfirvalda á Liu, sem er einn frægasti pólitíski fangi Kína. AFP


Ástandið „niðurdrepandi“

Steffen Seibert, talsmaður Merkel, sagði á blaðamannafundi í Berlín að Merkel þætti ástandið „niðurdrepandi“. „Hörmulegt tilfelli Liu Xiaobo er kanslaranum mikið hugarangur og hún vill sjá merki um mannúð í garð Liu Xiaobo og fjölskyldu hans,“ bætir Seibert við.

Xiaobo er einn frægasti pólitíski fangi Kína en hann var dæmdur í ell­efu ára fang­elsi árið 2009 fyr­ir að kalla eft­ir lýðræðis­leg­um um­bót­um þar. Hann greind­ist með ólækn­andi lifr­ar­krabba­mein í maí á þessu ári og var látinn laus. Í dag er hann á spítala í borginni Shenyang, undir stöðugu eftirliti.

„Xi forseti ætti ekki að hræðast deyjandi mann og hvað …
„Xi forseti ætti ekki að hræðast deyjandi mann og hvað hann gæti sagt,“ segir Jared Genser, lögfræðingur Liu, um ákvörðun kínverskra yfirvalda um að halda Liu í landinu. AFP


Forsetinn ætti ekki að hræðast deyjandi mann

Jared Genser, bandarískur lögfræðingur hans, segir að hópur læknisfræðilegra sérfræðinga sé tilbúinn til að flytja hann og fjölskyldu hans frá Kína „um leið og þau fái leyfi til að fara“. Genser segir jafnframt að yfirvöld í Peking séu að hindra brottför hans til að neita honum um síðasta vettvanginn þar sem hann gæti tjáð skoðanir sínar gegn valdboðsstefnu kínversku ríkisstjórnarinnar.

 „Enginn á að trúa því að höfnun kínversku ríkisstjórnarinnar, um að leyfa honum að fara, sé af læknisfræðilegum ástæðum,“ segir Genser. „Raunveruleg áform kínversku ríkisstjórnarinnar, með því að neita óskum hans, er að gera honum ómögulegt að eiga samskipti við nána vini, fjölskyldu sína og alþjóðasamfélagið,“ segir hann og bætir við: „Xi forseti ætti ekki að hræðast deyjandi mann og hvað hann gæti sagt.“

Ítarlegri frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert