Vill greiða leið Breta inn í EFTA

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vill opna dyrnar fyrir Breta að evrópsku viðskiptabandalagi í kjölfar Brexit með því að skoða aðild Breta að EFTA, fríverslunarsamtökum Evrópu. Guðlaugur Þór segist hafa rætt við Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, um þann möguleika að Bretar gangi í EFTA á fundi sem ráðherrarnir áttu fyrir nokkru, áður en bresku þingkosningarnar fóru fram í júní. Breska blaðið Telegraph greinir frá.

„Þetta er nokkuð sem við ættum að skoða gaumgæfilega og að mínu mati tel ég þetta vera mjög áhugaverða hugmynd,“ er haft eftir Guðlaugi Þór.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Hópur breskra fyrirtækja og viðskiptamanna hefur varað við hugsanlegum skaða sem útganga Breta úr Evrópusambandinu kunni að hafa í för með sér fyrir viðskiptamöguleika þarlendra aðila eftir að ríkið yfirgefur ESB.

Aðildarríki EFTA eru ásamt Íslandi Noregur, Liechtenstein og Sviss og yrði Bretland þannig fimmta aðildarríkið til að vera aðili að fríverslunarsamningnum ef af yrði. Það voru Bretar sem á sínum tíma áttu frumkvæðið að stofnun EFTA árið 1960 en þeir yfirgáfu svo samtökin þegar þeir gengu í ESB árið 1973. Segir Guðlaugur Þór að aðild Bretlands gæti aukið vægi EFTA á alþjóðavettvangi.

Ísland geti notið góðs af samningum Breta

„Að mínu mati gæti Ísland einnig notið með einhverjum hætti góðs af fríverslunarsamningum sem Bretar munu gera í náinni framtíð þar sem ljóst er að önnur lönd munu vilja gera samninga við Bretland, sem er eitt stærsta hagkerfi í heimi,“ segir Guðlaugur Þór.

Alþjóðaviðskiptanefnd fulltrúadeildar breska þingsins hefur sagt tímabundna aðild að EFTA geta verið þægilega leið í ferlinu við útgöngu Breta úr ESB árið 2019 því þannig gæti Bretland notið góðs af fyrirliggjandi viðskiptasamningum EFTA.

Segir Guðlaugur Þór að samtalið um aðild að EFTA sé þáttur í fjölbreyttum möguleikum til viðskipta og aukins samstarfs eftir að Bretland yfirgefur ESB. Þá hvetur Guðlaugur Þór stjórnmálamenn til að einbeita sér að því að ná sem bestum samningum fyrir alla aðila.

„Það er mikið rætt um hver er áreiðanlegri viðskiptafélagi, Bretland eða Evrópusambandið. En það er ljóst að ef um slæman samning verður að ræða mun fólk missa vinnuna á báðum svæðum og lífsgæði allra minnka,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert