Líkin af hjónum sem hurfu fyrir 75 árum

Skór Francine Dumoulin var meðal þess sem blasti við starfsmanni …
Skór Francine Dumoulin var meðal þess sem blasti við starfsmanni skíðasvæðisins er hann gekk fram á lík hjónanna. AFP

DNA-rannsókn hefur staðfest að líkin tvö sem fundust inni í hopandi jökli í svissnesku Ölpunum í síðustu viku séu af hjónum sem hurfu fyrir 75 árum.

Að sögn svissnesku lögreglunnar eru líkin af þeim Marcelin Dumoulin og eiginkonu hans Francine, en þau hurfu í ágúst 1942 eftir að hafa skroppið að heiman úr þorpinu Chandolin til að líta til með kúm sem voru í haga í nágrannakantónunni Bern.

Stysta leiðin á þeim tíma lá eftir göngustíg um jökulinn. Himinninn var heiður er þau héldu af stað, en ský hrönnuðust síðar upp og skyggni varð slæmt. Ekkert spurðist eftir þetta til Dumoulin-hjónanna, sem skildu eftir sig fimm börn, en talið var að þau hefðu fallið ofan í jökulsprungu.

Það var svo á fimmtudaginn í síðustu viku að starfsmaður á skíðasvæði fann lík þeirra vel varðveitt í Tsanfleuron-jöklinum í 2.600 metra hæð.

Monique Gautschy, eitt barna þeirra, greindi AFP-fréttastofunni frá því að lögregla hefði haft samband við sig og staðfest að búið væri að bera kennsl á hjónin. Segja ættingjar Dumoulin fundinn veita þeim tækifæri til að gefa þeim útförina sem þau ekki fengu.

Gautschy segir þau verða jörðuð næsta sunnudag og að sig „langi til að sjá þau einu sinni áður, bara til að faðma þau“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert