Samþykkja refsiaðgerðir gegn Rússum

Paul Ryan, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, sagði frumvarpið vera viðskiptabannspakka sem …
Paul Ryan, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, sagði frumvarpið vera viðskiptabannspakka sem herði tökin á hættulegustu andstæðingum Bandaríkjanna. AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti nú í kvöld viðskiptabann gegn Rússlandi, Íran og Norður-Kóreu. AFP-fréttastofan segir mikinn meirihluta þingmanna hafa greitt atkvæði með því að nýjar og strangari refsiaðgerðir tækju gildi gegn ríkjunum.

Er ákvörðunin sögð líkleg til að reita ráðamenn í Rússlandi til reiði, sem og að valda stjórnmálamönnum í ýmsum Evrópuríkum áhyggjum af efnahagslegum afleiðingum þessa.

Frumvarpið var samþykkt með 419 atkvæðum gegn þremur og lýsti Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar, því sem viðskiptabannspakka sem „herðir tökin á hættulegustu andstæðingum okkar í því skyni að tryggja öryggi Bandaríkjanna,“ sagði Ryan að lokinni atkvæðagreiðslu.

Frumvarpið fer næst fyrir öldungadeildina, sem styður viðskiptabannið en er ekki á einu máli um hvort að það eigi einnig að ná yfir refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert