Embættismenn lugu um vilja Vilhjálms og Harry segir bróðir Díönu

Spencer segir það „furðulegt og grimmilegt“ að sonum Díönu hafi …
Spencer segir það „furðulegt og grimmilegt“ að sonum Díönu hafi verið gert að ganga á eftir kistu móður sinnar. AFP

Charles Spencer, bróðir Díönu prinsessu, segir embættismenn hafa logið að sér þegar þeir sögðu að Vilhjálmur og Harry, synir Díönu, vildu ganga á eftir kistu móður sinnar þegar útför hennar fór fram í Lundúnum.

Tuttugu ár eru liðin frá því að Díana lést í bílslysi í París hinn 31. ágúst 1997. Áður en útför hennar fór fram í Westminster Abbey mótmælti Spencer því við embættismenn að synir prinsessunnar væru látnir ganga á eftir kistu móður sinnar en var tjáð að þeir vildu það.

Spencer segist í samtali við BBC hafa komist að því seinna að það hafi verið lygi.

Jarlinn sagði umrædda göngu hafa verið „hryllilegasta“ hálftíma lífs síns en reynslan hafi verið „milljón sinnum verri“ fyrir syni Díönu, sem voru 15 ára og 12 ára.

Í ræðu sinni við útförina skaut Spencer föstum skotum að fjölmiðlum og konungsfjölskyldunni en segist hafa komist að því seinna að drottningin hefði ekki haft út á það að setja.

„Einhver sem ég þekki mjög vel sagði við hana: Hvað fannst þér? og hún sagði: Hann var í fullum rétti að tjá hug sinn. Þetta var útför systur hans,“ sagði Spencer við BBC um viðbrögð hennar hátignar.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka