Vilja sýna Maduro að Bandaríkjunum sé alvara

Til átaka kom í borginni Caracas í Venesúela í tengslum …
Til átaka kom í borginni Caracas í Venesúela í tengslum við tveggja daga verkfall stjórnarandstöðunnar, sem er ósátt við fyrirhugaðar stjórnskipunarbreytingar Maduros. AFP

Bandaríkjastjórn samþykkti í dag refsiaðgerðir gegn 13 hátt settum embættismönnum ríkistjórnar Venesúela.

Stjórnarandstaðan í landinu hóf á sama tíma tveggja daga verkfall til að þrýsta á Nicolas Maduro, forseta Venesúela, að hætta við umdeildar breytingar á stjórnskipan landsins, sem auka eiga völd forsetans.

Til átaka kom á nokkrum stöðum í landinu og var einn maður drepinn í mótmælum í fjalllendi Merida-fylkis, að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.

Bandarísk stjórnvöld hafa nú samþykkt refsiaðgerðir gegn æðsta stjórnanda hers og lögreglu Venesúela, landskjörstjóra og varaforseta ríkisrekna olíufyrirtækisins PDVSA vegna meintrar spillingar þeirra.

Reuters segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hins vegar ekki hafa gripið til viðskiptabanns gegn olíuiðnaði Venesúela að svo stöddu, þótt verið sé að skoða slíkar aðgerðir.

Að sögn bandarískra ráðamanna eru aðgerðirnar nú, þar sem einstakir starfsmenn stjórnarinnar eru beittir refsiaðgerðum, ætlaðar til þess að sýna Maduro að bandarísk stjórnvöld séu reiðubúin að standa við stóru orðin varðandi viðskiptaþvinganir, hætti hann ekki við fyrirhugaðar stjórnskipunarbreytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert