Leita til Kólumbíu eftir læknisaðstoð

Marbella Nino, 22 ára, heldur á syni sínum á Erasmo …
Marbella Nino, 22 ára, heldur á syni sínum á Erasmo Meoz-háskólasjúkrahúsinu í Cucuta. AFP

Bumban á Dayönu Zambrano er merkilega nett miðað við að hún er komin nærri 9 mánuði á leið. Vannæring vegna efnahagsástandsins í Venesúela neyddi Zambrano til að ferðast til Kólumbíu eftir læknisaðstoð; hún vildi ekki að fæðing barnsins yrði barátta um líf eða dauða.

Zambrano fór meira en 1.200 km með rútu frá Ciudad Bolivar í austurhluta Venesúela til Cucuta í Kólumbíu. Hún er ein fjölmargra þungaðra kvenna sem hafa leitað yfir landamærin til að tryggja sér og barni sínu nauðsynlega læknisþjónustu.

Þegar hún mætti á háskólasjúkrahúsið Erasmo Meoz var hún óeðlilega létt miðað við að vera komin svo langt á meðgöngunni.

„Til allrar hamingju þyngdist ég og læknirinn segir barninu heilsast vel,“ sagði hin 21 árs Zambrano í samtali við AFP. „Lungu barnsins þurfa bara að vaxa aðeins, þar sem þau eru agnarsmá.“

Ákvörðun Zambrano um að flýja endurspeglar hversu slæmt ástandið er í Venesúela. Tíðni ungbarnadauða nam 30% árið 2016; 11.500 börn yngri ein eins árs létust.

Tíðni mæðradauða er 65%.

Mæður ferðast nú langar leiðir frá Venesúela og til Kólumbíu …
Mæður ferðast nú langar leiðir frá Venesúela og til Kólumbíu til að eignast börn sín. Tíðni ungbarnadauða heima fyrir er 30%. AFP

Ekkert að fá í Venesúela

Barn Zambrano þroskaðist óvenjuhægt vegna næringarskorts móðurinnar. „Ég borðaði ekki þrisvar á dag,“ segir hún. Hún hafi forgangsraðað því að sjá til þess að eins árs gömul dóttir hennar fengi nóg.

Á meðan ferð hennar til Kólumbíu stóð fór Zambrano að blæða.

Hún er enn föl og nett en líður betur og náði 34 vikum á ríkissjúkrahúsi þar sem umönnunin er ókeypis.

Í næsta herbergi liggur Joselys Canas, 19 ára, sem er fegin að sonur hennar fæddist í Cacuta. Hún flutti þangað ásamt móður sinni fyrir um ári, eftir að hafa yfirgefið heimili sitt í Maracaibo í Venesúela.

Hún segist „afar heppin, sérstaklega af því að það eru engin lyf að fá þar; það er ekkert að fá.“

Að sögn Juan Agustin Ramirez, forstjóra sjúkrahússins, hefur sjúklingum frá Venesúela fjölgað gríðarlega. Á tímabilinu september til desember 2015 sóttu 655 Venesúelamenn meðferð á spítalanum samanborið við 2.300 árið 2016.

Það sem af er þessu ári hafa venesúelskir sjúklingar talið 1.400.

Dayana Zambrano, 21 árs, bíður þess að eignast son sinn. …
Dayana Zambrano, 21 árs, bíður þess að eignast son sinn. Hann hefur þroskast óvenjuhægt vegna vannæringar móður hans. AFP

Krónískur skortur

Að sögn Ramirez hafa fæstar kvennanna frá Venesúela farið í mæðraskoðun, sem þýðir að þær eru sjálfkrafa flokkaðar í áhættuhóp.

„Ef þetta endar í umfangsmiklum harmleik, miklum brottflutningum Venesúelamanna, munum við þurfa að óska eftir alþjóðlegri aðstoð,“ segir Ramirez.

Hann sér fyrir sér að koma þyrfti á laggirnar fleiri sjúkrastofnunum fyrir flóttamenn frá nágrannaríkinu.

Ef Marbella Nino, 22 ára, hefði fætt Joshier í Venesúela hefði hún sjálf þurft að kaupa öll áhöld til að nota við keisaraskurðinn. Henni tókst ekki að finna það sem vantaði, né átti hún peninga til að borga fyrir það.

En á sjúkrahúsinu í Kólumbíu fékk hún meira að segja gefins bleyjur.

„Ég valdi að eiga barnið mitt hér, þar sem það yrði bólusett og betur fylgst með því,“ segir hún.

Nino hyggst snúa aftur til Venesúela eftir þrjár vikur en hefur áhyggjur af krónískum skorti á mat og lyfjum.

„Ímyndaðu þér ef hann myndi veikjast þar!“ segir hún um son sinn.

Yelitza Viera leikur við son sinn. Hún leitaði til Kólumbíu …
Yelitza Viera leikur við son sinn. Hún leitaði til Kólumbíu til að fá barnið sitt læknað af heilahimnubólgu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert