Tilgangslaust að kalla öryggisráðið saman

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, segir tilgangslaust að kalla …
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, segir tilgangslaust að kalla saman fund öryggisráðsins. AFP

Bandarísk stjórnvöld ætla ekki að kalla eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman til að ræða nýjasta eldflaugaskot Norður-Kóreu. Talsmenn Bandaríkjastjórnar segja ástæðuna vera þá að fundurinn muni ekki leiða til neinnar markverðar niðurstöðu.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, segir að slíkur fundur myndi senda þau skilaboð til N-Kóreu að alþjóðasamfélagið sé ekki reiðubúið að veita þarlendum stjórnvöldum mótstöðu. 

Yfirvöld í N-Kóreu segja að nýjustu tilraunir landsins sýni fram að eldflaugar þeirra geti nú náð til gjörvallra Bandaríkjanna, að því er segir á vef BBC.

Bandarísk stjórnvöld hafa brugðist við með að gera tilraunir með eldflaugavarnakerfi og með því að fljúga sprengjuþotum yfir Kóreuskaga. 

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði í dag, að hann hefði rætt við Donald Trump Bandaríkjaforseta og þeir væru sammála um að það væri nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða vegna Norður-Kóreu í ljósi nýjustu eldflaugatilrauna þeirra á föstudag. 

Hvorki Trump né Abe ræddu um að beita hervaldi gegn N-Kóreu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert