Undirbjuggu hryðjuverk að undirlagi Ríki íslams

Menn sem fylgdu skipunum frá vígasamtökunum Ríki íslams reyndu að granda farþegaþotu Etihad Airways með því að koma sprengju fyrir á grunlausum farþega vélarinnar. Þeir ætluðu sér einnig að fremja árás með eiturgasi, að sögn áströlsku lögreglunnar.

Sprengjuefninu átti að smygla um borð í þotuna í Sydney 15. júlí en komið var í veg fyrir það áður en að öryggishliði var komið. Mennirnir tveir; Khaled Khayat og Mahmoud Khayat hafa verið ákærðir fyrir hryðjuverk og var synjað um lausn gegn tryggingu í dag. Alls voru fjórir handteknir vegna málsins í upphafi.

Farþegaþota Etihad Airways.
Farþegaþota Etihad Airways. AFP

Lögregla segir að einn þeirra hafi komið sprengiefninu fyrir í farangri farþega. Samkvæmt fréttum ástralskra fjölmiðla var farþeginn grunlaus um að sprengju hafi verið komið fyrir í tösku hans en farþeginn er bróðir mannsins sem kom sprengjunni fyrir, samkvæmt fréttum ástralskra fjölmiðla.

Aðstoðarríkislögreglustjóri Ástralíu, Michael Phelan, segir að lögreglan telji að maðurinn sem var með sprengjuna í farangri sínum hafi ekki haft hugmynd um sprengiefnið. 

Hann segir að enn liggi ekki nákvæmlega fyrir hvers vegna sprengiefnið komst aldrei að öryggishliðinu þar sem farangur er skannaður en talið sé að ástæðan hafi verið þyngd sprengiefnisins. Efnið er talið hafa verið sent til Ástralíu frá Tyrklandi og það hafi verið liðsmenn Ríkis íslams sem hafi sent það til Ástralíu. 

Lögreglan hefur einnig komið upp um aðra áætlun mannanna um að fremja hryðjuverk en sú áætlun var skemmra á veg komin. Hún snerist um að útbúa tæki sem átti að losa brennisteinsvetni út í andrúmsloftið. Brennisteinsvetni er mjög eitrað og getur verið banvænt að anda því að sér. 

Aðstoðarríkislögreglustjóri Ástralíu, Michael Phelan.
Aðstoðarríkislögreglustjóri Ástralíu, Michael Phelan. AFP

„Þeir ræddu um að að koma því fyrir á fjölförnum lokuðum stöðum, til að mynda í almenningssamgöngutækjum,“ segir Phelan. Hann bætti við að þeir hafi hins vegar verið langt frá því að búa til slíkt tæki. Það hafi enn verið á umræðustigi.

Samskipti Ríkis íslams við mennina hófust í apríl og sendu þeir íhluti og drifefni í sprengjuna með fraktflugi frá Tyrklandi til mannanna. Síðan fengu mennirnir leiðbeiningar um smíði sprengju sem hefði valdið stórtjóni. 

Khaled Khayat er 49 ára og  Mahmoud Khayat er 32 ára. Þeir verða næst leiddir fyrir dómara 14. nóvember en eins og áður sagði voru alls fjórir handteknir í aðgerðum lögreglu. Einum hefur verið sleppt og annar er enn yfirheyrður og í haldi lögreglu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert