Einróma samþykkt í öryggisráðinu

Nikki Haley fulltrúi Bandaríkjanna og Vassilí Alekseevich Nebenzia fulltrúi Rússa …
Nikki Haley fulltrúi Bandaríkjanna og Vassilí Alekseevich Nebenzia fulltrúi Rússa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. AFP

Fulltrúar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna samþykktu einróma hertar refsiaðgerðir gagnvar Norður-Kóreu í dag. Meðal annars var samþykkt bann við kaupum á vörum frá N-Kóreu sem þýðir eins milljarðs Bandaríkjadala tekjusamdrátt fyrir ríkið.

Um er að ræða fyrstu aðgerðirnar sem gripið er til gegn N-Kóreu frá því Donald Trump sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna í janúar. Þykir samþykktin sýna að Kínverjar vilja refsa fyrrum bandamönnum sínum í Pyongyang.

Samkvæmt samþykktinni verður lagt bann við útflutningi á kolum, járni, járnblendi og fleiri hrávörum. Jafnframt er lagt bann við útflutningi á fiski og öðrum sjávarafurðum frá Norður-Kóreu. Vegna þessa verður Norður-Kórea af þriðjungi útflutningstekna sinna en áætlað er að þær nemi um þremur milljörðum Bandaríkjadala á ári.

Fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu, Nikki Haley, segir að aðgerðir öryggisráðsins sýni að með þessu séu refsiaðgerðir gegn N-Kóreu komnar á nýtt stig en þær eru hertar vegna endurtekinna eldflaugatilrauna undanfarið. Um séu að ræða hörðustu refsiaðgerðir sem öryggisráðið hefur samþykkt í langan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert