„Það er hún sem hefur haft mig að fífli“

Hinrik prins ásamt eiginkonu sinni, Margréti Danadrottningu.
Hinrik prins ásamt eiginkonu sinni, Margréti Danadrottningu. Ljósmynd/Scanpix Denmark

„Konan mín hefur ekki sýnt mér þá virðingu sem venjuleg kona sýnir eiginmanni sínum,“ segir Hinrik prins í viðtali við tímaritið Se og Hør. Ákvörðun Hinriks að láta ekki jarðsetja sig við hlið eiginkonu sinnar Margrétar Danadrottningar hefur valdið miklum usla í Danmörku.

Hinrik prins hefur krafist þess að verða ekki jarðsettur við hlið eiginkonu sinnar í dómkirkjunni í Hróarskeldu. Þetta segir hann í viðtali við Se og Hør og Billed-Bladet. Þar er Hinrik meðal annars spurður út í gagnrýni þess efnis að hann geri drottninguna að aðhlátursefni með ákvörðun sinni.

„Það er hún sem hefur haft mig að fífli,“ segir Hinrik. Að sögn Lene Balleby, upplýsingafulltrúa konungsfjölskyldunnar, er ákvörðun prinsins afleiðing af óánægju hans með stöðu sína innan konungsfjölskyldunnar.

„Konan mín hefur ákveðið að hún sé vilji vera drottning og ég er ánægður með það. En sem manneskja verður hún að vita það að í hjónabandi eru karl og kona jöfn,“ segir Hinrik við Se og Hør.

Hinrik leggur þó áherslu á að þau hjónin elski hvort annað og muni eyða saman 14 dögum í fríi í Frakklandi næstu tvær vikur. Konungsfjölskyldan vill ekki tjá sig um umrædd viðtöl við Hinrik samkvæmt Lene Balleby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert