Íbúar Guam halda ró sinni

Ríkisstjóri Guam, Eddie Calvo, hvetur fólk til þess að halda ró sinni og lagði lítið upp úr hótunum Norður-Kóreu um að gera árás á Kyrrahafseyjuna, sem er undir yfirráðum Bandaríkjanna. Guam væri hins vegar búið undir hvað sem er. Calvo flutti sjónvarpsávarp eftir að N-Kórea birti hótanir sínar.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hótaði N-Kóreu eldi og brennisteini í gær vegna áætlana landsins á sviði kjarnorku. Nokkrum klukkustundum síðar bættu yfirvöld í   Pyongyang um betur og sögðust vera að íhuga að gera eldflaugaárás á Guam sem er mikilvæg staðsetning fyrir Bandaríkin hernaðarlega.

Calvo segir yfirvöld á Guam vinna með yfirvöldum í Washington til þess að tryggja öryggi eyjaskeggja. Hann sagðist vilja fullvissa íbúa Guam að eins og staðan er núna stendur eyjunni engin ógn af nágrönnum í norðri. Hann hafi rætt við yfirmann herafla Bandaríkjanna  á þessu svæði og fengið staðfestingu þar á.

Um sex þúsund bandarískir hermenn eru á Guam en eyjan er  á milli Kóreuskaga og Suður-Kínahafs. Þar eru tvær herstöðvar Bandaríkjahers.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert