Látinn laus af heilsufarsástæðum

Hyeon Soo Lim við réttarhöldin árið 2015.
Hyeon Soo Lim við réttarhöldin árið 2015. AFP

Kanadískur prestur sem hefur setið í fangelsi í Norður-Kóreu undanfarin ár hefur verið látinn laus af heilsufarsástæðum. 

Hyeon Soo Lim, sem fæddist í Suður-Kóreu og er 61 árs, fékk reynslulausn af mannúðarástæðum samkvæmt frétt ríkisfréttastofu N-Kóreu. Sendinefnd á vegum kanadískra yfirvalda er í Pyongyang til þess að ræða við þarlend stjórnvöld um prestinn sem starfaði áður í Toronto.

Lim var árið 2015 fundinn sekur um að hafa tekið þátt í því með Bandaríkjamönnum og Suður-Kóreumönnum að dreifa áróðri um mannréttindamál í Norður-Kóreu og sverta ímynd landsins. Hann var einnig sakaður um að hafa fjármagnað og aðstoðað „svikara“ sem vildu flýja frá Norður-Kóreu. Dómstóllinn sagði að Lim hefði játað sök og látið í ljós mikla iðrun fyrir brot sín.

Lim var handtekinn í Norður-Kóreu í janúar 2015 eftir að hann fór þangað frá Kína. Kirkja prestsins segir að hann hafi aðeins starfað að mannúðarmálum í Norður-Kóreu.

Sonur Lim, James Lim,fékk upplýsingar um það um helgina að kanadískir embættismenn og læknir væru á leið til Norður-Kóreu og lenti vélin í Pyongyang á mánudag. 
Lim var dæmdur í lífstíðarvistunar í þrælkunarbúðum og hefur heilsu hans hrakað mjög frá því hann hóf afplánun. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert