Vill að Bretar noti EFTA-dómstólinn

AFP

Forseti Evrópudómstólsins, æðsta dómstóls Evrópusambandsins, Koen Lenaerts, hefur lagt til að EFTA-dómstólnum verði fengið það viðbótarhlutverk að úrskurða í mögulegum ágreiningsefnum vegna fyrirhugaðs samnings Bretlands við Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr sambandinu. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Times.

Hlutverk EFTA-dómstólsins í dag er að úrskurða í málum sem koma upp varðandi framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) gagnvart EFTA-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein. 

„Við þurfum ekki að finna allt upp á nýjan leik, eins og hjólið, það er þegar til. Spurningin er hvort hægt er að aðlaga hjólið að aðstæðum en það er aftur viðfangsefni pólitískra samningaviðræðna,“ er haft eftir Lenaerts. 

Lenaerts benti hins vegar á að þó slíkt fyrirkomulag þýddi að Evrópudómstólinn hefði ekki lengur bein áhrif innan Bretlands mætti EFTA-dómstóllinn ekki komast að niðurstöðum sem væru frábrugðnar dómum þess fyrrnefnda í neinu sem máli skiptir. Þannig væri skýrt kveðið á um það að viðhalda yrði samræmdri dómaniðurstöðu innan EES.

„Á pappírnum er um að ræða tvo sjálfstæða dómstóla. Í raunveruleikanum hefur vægi Evrópudómstólsins meiri þýðingu,“ segir Lenaerts ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert