20 tonn sýktra eggja seld í Danmörku

Egg í stórmarkaði í Hollandi.
Egg í stórmarkaði í Hollandi. AFP

Tuttugu tonn af eggjum með skordýraeitri hafa verið seld í Danmörku, að sögn heilbrigðiseftirlits landsins.

„Danska fyrirtækið Danaeg Producs hefur fengið alls 20 tonn af soðnum eggjum án skurnar frá birgðasala í Belgíu. Eggin hafa flest verið seld til mötuneyta, kaffihúsa og fyrirtækja sem annast veitingaþjónustu. Þau hafa líklega ekki verið seld í dönskum smásöluverslunum að neinu ráði,“ sagði stofnunin.

Skordýraeitrið getur skaðað nýru fólks og lifur séu eggin borðuð í miklu magni.

„Sýni sem voru rannsökuð í Hollandi sýndu leifar af fipronil í eggjunum en ekki í þannig magni að það skaðaði heilsu fólks. Vegna þess að innihald eggjanna er ólöglegt mun Danaeg Product innkalla eggin frá viðskiptavinum sínum.“

Heilbrigðiseftirlitið hafði fyrr í vikunni sagt að Danmörk væri laus við eggjahneykslið sem hefur skekið Evrópu undanfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert