Stríðsrekstur á Twitter

AFP

Forseti Bandaríkjanna,Donald Trump, sagði í dag að Bandaríkjaher tilbúinn til gagnárásar ef Norður-Kórea hegðar sér óskynsamlega.

Ummælin lét Trump falla á Twitter en orðastríð hans og yfirvalda í Norður-Kóreu virðist ekki í rénum heldur stigmagnast fremur en hitt.

Þykir flestum nóg um og báðu kínversk yfirvöld þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna og Norður-Kóreu að róa sig niður og  hætta orðaskakinu sem hefur einkennt umræðuna síðusta daga. 

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, er alfarið á móti öllum hernaði til þess að leysa ágreiningin við Norður-Kóreu. Lét hún ummælin falla eftir að hafa séð færslu Trump á Twitter.

Hún segist miklu frekar vilja sjá friðsamlega lausn og að málið sé leyst með aðild öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Hún segir að Þjóðverjar muni taka þátt í að beita Norður-Kóreu refsiaðgerðum líkt og samþykkt var í öryggisráðinu á laugardag en ekki hernaði. „Ég tel að orðaskak sé ekki réttu viðbrögðin,“ segir Merkel er hún var spurð út í ummæli Trump á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert