Varar við styrjöld komi til árásar

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Rex Tillerson, utanríkisráðherra landsins.
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Rex Tillerson, utanríkisráðherra landsins. AFP

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, James Mattis, varaði við því í dag að ef Norður-Kórea réðist á bandarískt landssvæði gæti það áður en varði leitt til þess að styrjöld brytist út. Ummælin fólu í sér hvatningu til þess að draga úr spennu í samskiptum ríkjanna samkvæmt frétt AFP. Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur að sama skapi kallað eftir því.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hótuðu því í síðustu viku að að skjóta fjórum eldflaugum í tilraunaskyni að eyjunni Guam sem er bandarískt landssvæði. Bandarísk herstöð er einnig á eyjunni. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur í kjölfarið farið hörðum orðum um ráðamenn í Norður-Kóreu en ummæli Matis og Tillersons eru mjög af öðrum toga.

Ráðherrarnir tveir skrifuðu sameiginlega grein um stöðu mála sem birtist í bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal þar sem kemur fram að Bandaríkin hafi engan áhuga á því að koma núverandi ráðamönnum frá völdum í Norður-Kóreu eða að stuðla að sameiningu Norður- og Suður-Kóreu. Mikilvægt væri að leysa deiluna á diplómatískum forsendum.

Mattis sagði við blaðamenn í dag að ráðherrarnir hefði ákveðið að rita greinina fyrir tveimur vikum og að hún væri ekki svar við vaxandi spennu undanfarna daga. Hugmyndin hafi aðallega verið að sýna fram á að ráðuneytin tvö ynnu saman að lausn málsins. Leysa þyrfti málið friðsamlega með aðstoð Kína þó mögulegur hernaður væri áfram á borðinu.

Hvöttu þeir Mattis og Tillerson ráðamenn í Kína til þess að beita áhrifum sínum í Norður-Kóreu til þess að stuðla að friðsamlegum samskiptum, en Kína er bæði langstærsta viðskiptaland Norður-Kóreu og bandamaður landsins. Bentu ráðherrarnir á að Kína hefði mikla hagsmuni af því að tryggja frið og stöðugleika á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert