Feginn að hafa tekið þátt í líkfylgdinni

Vilhjálmur prins og Harry prins við útför móður sinnar 6. …
Vilhjálmur prins og Harry prins við útför móður sinnar 6. september 1997. AFP

Harry prins er í dag feginn því að hafa tekið þátt í líkfylgd móður sinnar, Díönu prinsessu, en áður hefur hann sagt að það sé nokkuð sem ekki eigi að biðja neitt 12 ára barn um.

Í viðtali við BBC í morgun kemur fram að hann hafi ekki skoðun á því hvort það hafi verið rétt eða rangt að vera í líkfylgdinni en þegar hann líti aftur sé hann ánægður með að hafa gert það.

Hinn 31. ágúst verða liðin tuttugu ár frá því Díana prinsessa lést í bílslysi í París. Hún var 36 ára. 

Diana prinsessa með drengina tvo, Harry og Vilhjálm.
Diana prinsessa með drengina tvo, Harry og Vilhjálm. AFP

Harry þakkar föður sínum, Karli prinsi, fyrir það hvernig hann hafi alið önn fyrir þeim bræðrum eftir andlát móður þeirra.

„Eitt af því erfiðasta sem foreldri þarf að gera er að greina barni sínu frá því að hitt foreldrið sé látið. Hvernig þú tekst á við það veit ég ekki en hann var þarna fyrir okkur,“ sagði Harry í viðtalinu sem BBC birti í morgun.

Harry og Vilhjálmur bróðir hans hafa báðir rætt við fjölmiðla að undanförnu um móður sína og andlát hennar. Vilhjálmur var 15 ára þegar Díana lést. 

Díana og Harry skömmu fyrir andlát hennar.
Díana og Harry skömmu fyrir andlát hennar. AFP

Vilhjálmur sagði í heimildarþættinum Diana, 7 Days að það að ganga á eftir kistunni væri eitt af því erfiðasta sem hann hefði gert um ævina. Hárið hefði komið honum til bjargar því þegar hann laut höfði féll hárið fyrir andlitið þannig að enginn sá framan í hann á þessari löngu og einmanalegu göngu.

„Ég taldi að ef ég horfði niður á gólfið og hárið væri fyrir andlitinu gæti enginn séð mig,“ segir Vilhjálmur í þættinum sem var sýndur á BBC á sunnudag.

Hann segir að þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun að taka þátt í líkfylgdinni en í raun hafi verið um sameiginlega ákvörðun fjölskyldunnar að ræða. „Það er þetta jafnvægi milli skyldu og fjölskyldunnar og þetta er nokkuð sem við urðum að gera.“

Sömu sem eltu Díönu inn í göngin og tóku myndir af henni á dánarstundinni

Díana prinsessa af Wales lést í bílslysi í undirgöngum Alma-brúarinnar í París árið 1997 en slysið varð með þeim hætti að æsifréttaljósmyndarar eltu Mercedes-bíl Díönu og unnusta hennar þegar þau yfirgáfu hótel í París. Ökumaðurinn keyrði á steinsúlu í undirgöngum með þeim afleiðingum að allir í bílnum létu lífið að undanskildum lífverðinum Trevor Rees-Jones. Mikil sorg ríkti í Bretlandi eftir slysið og geysilegur mannfjöldi fylgdi prinsessunni til grafar.

Enn telja margir að dauða Díönu hafi borið að með óeðlilegum hætti og einn þeirra er Mohammed Al-Fayed, faðir Dodis Al-Fayeds sem var unnusti Díönu þegar hún lést. Al-Fayed hélt því fram eftir slysið að breska leyniþjónustan hefði að skipan háttsettra aðila í Bretlandi látið myrða Díönu og Dodi vegna þess að þeir hefðu talið ástarsamband þeirra vandræðalegt fyrir konungsfjölskylduna.

Niðurstaða franskra yfirvalda var sú að bílstjóri Díönu og Dodis Al-Fayeds, Henry Paul, hefði verið drukkinn og átt sök á slysinu. Áfengismagnið í blóði hans var þrefalt hærra en leyfilegt er í Bretlandi og bíllinn var langt yfir hámarkshraða. 

Harry segir að eitt það erfiðasta sé að það sé sama fólkið og elti hana inn í göngin sem tók myndir af henni þegar hún var að deyja í aftursæti bifreiðarinnar. Þ.e.a.s. æsifréttaljósmyndararnir.

 Umfjöllun BBC

Harry prins.
Harry prins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert