„Allir valkostir“ uppi á borðum

Donald Trump og eiginkona hans Melania Trump yfirgáfu Hvíta húsið …
Donald Trump og eiginkona hans Melania Trump yfirgáfu Hvíta húsið í dag til að heimsækja Texas, þar sem fellibylurinn Harvey hefur valdið miklum skaða. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varað við því að „allir valkostir“ séu uppi á borðum eftir að stjórnvöld í Norður-Kóreu skutu eldflaug yfir Japan. Ummæli forsetans þykja gefa til kynna að yfirvöld vestanhafs hafi ekki útilokað að grípa til hernaðaraðgerða.

Eldflaugaskotið er til marks um enn frekari stigmögnun deilnanna milli Norður-Kóreu og alþjóðasamfélagsins um kjarnorkuáætlun fyrrnefnda. Norðurkóresk stjórnvöld hafa réttlætt tilraunaskotið sem ákveðið viðbragð við „ögrun“ af hálfu Bandaríkjamanna, sem hafa ítrekað kallað eftir því að aðilar setjist aftur að samningaborðinu.

Haft var eftir Trump í tilkynningu frá Hvíta húsinu að ógnandi tilburðir norðurkóreskra stjórnvalda yrðu aðeins til þess að einangra þau enn frekar. Sagði forsetinn að heimurinn hefði móttekið skilaboð stjórnar Norður-Kóreu, sem hefði sýnt fyrirlitningu í garð nágranna landsins, aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og lágmarksviðmiða um ásættanlega hegðun á alþjóðasviðinu.

Forsetinn hefur áður hótað „eldi og reiði“ í tengslum við eldflaugatilraunir Norður-Kóreu.

Nýjasta útspil þarlendra stjórnvalda hefur verið gagnrýnt út um allan heim en Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, sagði um að ræða fordæmalausa og alvarlega ógnun. Þá hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verið boðað til neyðarfundar vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert