Flugfélög sögð okra á fólki í neyð

Það er orðið mjög hvasst í Miami þar sem þessi …
Það er orðið mjög hvasst í Miami þar sem þessi ljósmynd var tekin í dag. Búist er við að fellibylurinn Irma skelli af fullum þunga á Flórída á morgun. AFP

Tveir bandarískir öldungadeildarþingmenn hafa beðið samgönguráðherra Bandaríkjanna um að skoða hvort eitthvað sé hæft í þeim ásökunum að flugfélög hafi snarhækkað hjá sér verð á farmiðum í tengslum við komu fellibyljarins Irmu og þannig reynt að okra á fólki sem er að reyna að komast í öruggt skjól.

Þetta kemur fram á vef The New York Times. 

Fjölmargar kvartanir vegna meintra aðgerða flugfélaga hafa vakið athygli á samfélagsmiðlum, en fyrr í vikunni vakti ein Twitter-færsla sérstaka athygli sem fór sem eldur um sinu. Þar var sýnt fram á að að flugfélagið Delta hefði ákveðið að hækka verð á flugferð frá Miami til Phoenix úr 547 dölum, sem samsvarar um 58.000 kr., í 3.200 dali, sem jafngildir um 340.000 kr. 

Fjölmargir íbúar Flórída-ríkis hafa lýst yfir óánægju sinni með það hvernig verð á ýmiskonar nauðsynjavoru, s.s vatni og bensíni, hafi hækkað ótæpilega mikið, en íbúarnir segja að það sé ekki sanngjarnt hvernig staðið sé að málum. Frá því á mánudag hafa yfir 7.000 kvartanir borist til dómsmálaráðuneytisins í Flórída vegna slíkra tilvika.

Öldungadeildarþingmennirnir Richard Blumenthal og Edward J. Markey segja í bréfi sem þeir sendu til Elaine L. Chao, samgönguráðherra Bandaríkjana, að þó að flugfélög eigi rétt á því að fá sanngjarnt verð fyrir veitta þjónustu, og að búast megi við verðsveiflum, þá geti ekkert réttlætt það að okrað sé á Bandaríkjamönnum sem eru einfaldlega að reyna koma sér í öruggt skjól.

Þá hefur þingmaður í Flórída einnig skrifað Chao bréf þar sem hann óskar eftir því að starfshættir United Airlines verði rannsakaðir, en þingmanninum hafa einnig borist fjölmargar kvartanir varðandi vafasama viðskiptahætti flugfélagsins. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert