„Kjósendur vilja ekki heyra slíkt“

Ketil Solvik-Olsen, samgönguráðherra Noregs.
Ketil Solvik-Olsen, samgönguráðherra Noregs. Ljósmynd/Samgönguráðuneyti Noregs

„Við höfum mjög góða tilfinningu gagnvart kosningunum. Skoðanakannanirnar hafa smám saman verið að breytast okkur í hag. Við teljum að hlutirnir séu á réttri leið í Noregi og stjórnarandstöðuflokkarnir virðast aðallega kvarta yfir því að hafa ekkert til að kvarta yfir. Þannig að á heildina litið þá höfum við nokkuð góða tilfinningu gagnvart kosningunum.“

Þetta segir Ketil Solvik-Olsen, samgönguráðherra Noregs, í samtali við mbl.is en þingkosningar fara fram í landinu á morgun. Lengi vel leit út fyrir að norski Verkamannaflokkurinn og samstarfsflokkar hans á vinstrivængnum myndu vinna auðveldan sigur í kosningunum og ná þingmeirihluta en síðustu kannanir hafa hins vegar bent til þess að hugsanlegt sé að núverandi minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins með stuðningi Frjálslynda flokksins og Kristilega þjóðarflokksins verði áfram við völd.

„Jafnvel þó atvinnuleysi fari minnkandi tala þeir eins og það sé í hæstu hæðum. Þeir segjast ætla að hækka skatta sem leggst vel í suma. En margir aðrir segja að ríkið sé þegar að skattleggja fólk og fyrirtæki nógu mikið og að í stað þess að hækka skatta ætti að nýta betur það skattfé sem ríkið hefur þegar,“ segir Solvik-Olsen sem situr á þingi fyrir Framfaraflokkinn. Miðað við skoðanakannanir vilji fólk frekar að farið sé betur með en Verkamannaflokkurinn hrópi þá aðeins hærra.

Hefur ekki önnur svör en að hrópa hærra

Þannig hafi Verkamannaflokkurinn engin önnur svör en að hamra einfaldlega á áherslum sínum og þeim veruleika sem flokkurinn vilji meina að sé fyrir hendi í Noregi. Þetta sé í raun hliðstætt við það sem hafi gerst fyrir þingkosningarnar 1993 í tilfelli Hægriflokksins sem hafi þá haldið því fram að allt væri á niðurleið en kjósendur hafi hins vegar verið því ósammála. Hægriflokkurinn hafi gengið vel um vorið en síðan tapað stórt í kosningunum.

„Kosningarnar eru núna að skella á og Verkamannaflokkurinn gerir sér enga grein fyrir því hvað sé að hjá honum. Í stað þess að breyta orðræðunni hafa þau orðið færst í aukana og eru komnir í þann gír að segja að við séum vont fólk eða að Erna Solberg forsætisráðherra hafi ekki það sem þurfi til að vera forsætisráðherra. Þau eru farin að fara í manninn í stað þess að ræða málefnin og kjósendur vilja ekki heyra slíkt,“ segir ráðherrann.

„Þannig að í stuttu máli hefur hægrivængurinn verið að styrkja stöðu sína. Skoðanakannanir benda til þess að við höfum endurheimt meirihlutann okkar en á sama tíma er mjög mjótt á mununum. Lendi einhver flokkur undir 4% þröskuldinum sem þarf til að fá fulltrúa kjörna á þing getur það ráðið úrslitum um það hvor vængurinn sigrar. En svo virðist sem Frjálslyndi flokkurinn sé að sækja á og ég er bjartsýnn á að þeir komist yfir fjögur prósentin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert