Öryggisgæsla kann að seinka birtingu úrslita

Jonas Gahr Store, leiðtogi norska Verkamannaflokksins, greiddi atkvæði í Osló …
Jonas Gahr Store, leiðtogi norska Verkamannaflokksins, greiddi atkvæði í Osló í morgun. AFP

Öryggisgæsla hefur verið aukin í tengslum við norsku þingkosningarnar sem fara fram í landinu í dag og eru hertar öryggissaðgerðir sagðar geta seinkað birtingu úrslita. Dagblaðið Verdens Gang segir blaðamenn VG ekki hafa fengið að koma nær herberginu þar sem fyrirframgreidd atkvæði Oslóbúa eru geymd en sem nam nokkrum metrum.

„Það er mikil öryggisgæsla í kringum kjörseðlana, hefur VG eftir Ingvild Åsgård upplýsingafulltrúa kjörnefndar borgarinnar.

Alls hefur rúmlega milljón Norðmanna kosið utan kjörfundar í ár, en sveitastjórnum landsins var greint frá því á föstudag að handtelja yrði öll utankjörfundaratkvæði, það hefur ekki verið gert í Osló frá því á níunda áratug síðustu aldar.

Er handtalningin talin geta seinkað birtingu úrslita, en ákveðið er að fara þessa leið til að kosningaúrslitin séu hafin yfir allan vafa.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og leiðtogi norska Hægriflokksins brá á …
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og leiðtogi norska Hægriflokksins brá á leik í kosningabaráttunni í Osló í gær. AFP

Það er alltaf erfitt að segja hversu langan tíma talningin taki, segir Kristina Brekke Jørgensen upplýsingafulltrúi yfirkjörnefndar. Aðalatriðið sé að sveitarfélögunum takist að ljúka talningu án mikilla seinkana.

„Menn verða að sætta sig við að úrlitum seinki og að sveitarfélögin fá auka reikning vegna handtalningarinnar,“ segir Jan Tore Sanner, ráðherra sveitastjórnmála. Mestu skipti að traust á kosningaferlinu haldist óskert.

Búist er við að fyrstu útgönguspár verði birtar um níuleytið í kvöld að norskum tíma.

Kjörstaðir í 173 sveitarfélögum eru opnir í bæði dag og gær og eru atkvæðakassar því teknir að berast inn til talningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert