Konur á íþróttaleikvangi í fyrsta sinn

Konur þyrptust á leikvanginn í tilefni dagsins.
Konur þyrptust á leikvanginn í tilefni dagsins. AFP

Hundruð sádiarabískra kvenna þyrptust á King Fahd íþróttaleikvanginn í dag, í fyrsta skipti, til að fagna þjóðhátíðardegi Sádi-Arabíu. Hingað til hafa konur þar í landi ekki mátt sækja viðburði á íþróttaleikvöngum vegna strangra reglna um aðskilnað kynjanna á opinberum svæðum.

Í dag varð hins vegar breyting á og konur fengu í fyrsta skipti að fara inn á leikvanginn, sem áður var aðeins ætlaður körlum. Á leikvanginum fara aðallega fram knattspyrnuleikir en í dag var þar fluttur söngleikur og sagnfræðilegt leikrit í tilefni dagsins.

AFP

Konurnar, sem urðu að vera í fylgd með fjölskyldumeðlimum og máttu ekki sitja við hlið einhleypra karlmanna, skreyttu sig margar með grænum höttum sem þær settu ofan á blæjurnar og fögnuðu ákaft.

„Við vonum að í framtíðinni verði engar hömlur á veru okkar hér á leikvanginum,“ sagði Um Abdulrahman í samtali við AFP-fréttastofuna. „Í svo mörg ár höfum við vonað að konur öðlist sömu réttindi og karlmenn.“

Karlpeningurinn virtist einnig ánægður með að fá kvenfólk á leikvanginn og margir birtu færslur á Twitter þar sem þeir lýstu þessari sögulegu stund. „Það lítur út fyrir að konur hafi keypt alla miðana,“ skrifaði einn á Twitter.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert