Katalónía geti lýst yfir sjálfstæði

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, segir héraðið hafa öðlast rétt til …
Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, segir héraðið hafa öðlast rétt til að lýsa yfir sjálfstæði. AFP

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, segir að sjálfstjórnarhéraðið hafi öðlast rétt til að lýsa yfir sjálfstæði. Þetta kom fram í ræðu hans nú í kvöld, en atkvæðagreiðsla um sjálfstæði fór fram í dag í skugga mikilla átaka og ofbeldis af hálfu lögreglunnar á Spáni.

Úrslit kosninganna hafa ekki enn verið kynnt, en Puigdemont sagði að þau yrðu send til þingsins til framkvæmdar. Þá sagði hann einnig að eftir daginn í dag ætti rödd íbúanna að fá að heyrast í Evrópu, en þá vísaði hann til mögulegrar aðildarumsóknar í Evrópusambandið fyrir héraðið og sagði sambandið ekki geta horft í hina áttina þegar kæmi að meintum mannréttindabrotum í kringum kosninguna.

„Yfirvöld á Spáni hafa í dag skrifað skammarlega blaðsíðu í sögunni við Katalóníu,“ sagði hann í ræðu sinni.

Yfirvöld á Spáni eru ekki sammála þessari skoðun Puigdemont, en fyrr í kvöld hélt Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, ávarp þar sem hann sagði að engin atkvæðagreiðsla um sjálfstæði hafi farið fram í dag. Áður hafði hæstiréttur landsins sagt að slík kosning væri ólögleg.

Rojoy sagði í ávarp­inu að at­kvæðagreiðslan væri aðeins til þess fall­in að auka bil milli stríðandi fylk­inga. Sagði hann alla ábyrgð á því sem gerðist í dag á hönd­um stjórn­valda á sjálf­stjórn­ar­svæðinu.

Framganga lögreglumanna í dag hefur verið talsvert gagnrýnd, en þeir gengu fram með ofbeldi gegn kjósendum á sama tíma og þeir lokuðu kjörstöðum. Hrósaði Rojoy lög­regl­unni fyr­ir að hafa staðið vörð um lög og reglu og þakkaði Evr­ópu­sam­band­inu fyr­ir stuðning sinn. Þá sagði hann all­ar aðgerðir lög­regl­unn­ar og spænskra stjórn­valda hafa verið sam­kvæmt lög­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert