Geri greinarmun á hælisleitendum og förufólki

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands. AFP

Forseti Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, kallaði eftir því í ræðu sem hann flutti í tilefni að sameiningardegi landsins í gær að þýska ríkisstjórnin gerði á ný greinarmun á milli „þeirra sem sættu pólitískum ofsóknum og þeirra sem væru að flýja bágar efnahagslegar aðstæður.“ Fjallað var um ræðuna í þýska tímaritinu Spiegel í gær.

Steinmeier sagði einu leiðina til þess að takast á við breyttar forsendur í umræðunni um innflytjendamál í Þýskalandi að viðurkenna muninn þarna á milli og að fram færi heiðarleg umræða um það „hvaða innflytjendur og hversu marga“ Þjóðverjar vildu fá inn í landið sitt og jafnvel sömuleiðis hversu mörgum þeir þyrftu á að halda.

Steinmeier, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands og sat á þingi fyrir þýska Jafnaðarmenn, sagði að Þjóðverjar þyrftu að gera meira til þess að hjálpa þeim væru að flýja pólitískar ofsóknir. Hins vegar væri það forsenda fyrir því  að Þjóðverjar gætu það í framtíðinni að þeir gerðu þennan greinarmun með skýrum hætti.

Þingkosningar fóru fram í Þýskalandi í síðasta mánuði þar sem öfgaþjóðernisflokkurinn AfD fékk í fyrsta sinn þingmenn kjörna á þýska sambandsþingið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert