Hvatti viðhaldið til að fara í fóstureyðingu

BRENDAN SMIALOWSKI

Repúblikaninn Tim Murphy, sem situr á þingi Pennsylvaníu, lagði hart að konu sem hann átti í ástarsambandi við að fara í fóstureyðingu. Murphy hefur verið framarlega í flokki þeirra sem vilja banna fóstureyðingar. Skilaboð sem konan sendi honum voru birt í Pittsburgh Post-Gazette.

Murphy viðurkenndi að hafa haldið framhjá eiginkonu sinni í september en skilaboðin eru frá því í janúar. Þar sakar konan hann um  hræsni en Murphy hafði birt texta á Facebook-síðu sinni þar sem hann talar gegn fóstureyðingum.
„Þú átt ekkert með að birta skilaboð um að þú standir með lífi ekkert frekar en þegar þú baðst mig í síðustu viku um að láta eyða ófæddu barni okkar þegar þú taldir að ekkert annað væri í boði,“ skrifar konan í skilaboðum til Murphy. 
Murphy svarar henni með því að hann hafi ekki sjálfur sett inn skilaboðin á Facebook, ekkert frekar en vanalega, heldur starfsfólk hans. Hann hafi lesið þau og beðið starfsfólk sitt um að skrifa ekki fleiri slík skilaboð. Talsmaður Murphy vildi ekki tjá sig um málið þegar CNN leitaði eftir því. 
Mary Lou Gartner, sem er ein af þeim sem standa að samtökunum LifePac, sem berjast gegn fóstureyðingum, segir að Murphy sé heiðarlegur maður og í stað þess að gagnrýna hann vísaði hún í biblíuna. „Ég er ekki reiðubúin til þess að kasta steini í hann,“ sagði Gartner við fréttamann CNN.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert