90% sögðu já við aðskilnaði frá Spáni

Mótmælendur við húsakynni spænsku lögreglunnar í Barcelona. Atkvæðatalningu í kosningunni …
Mótmælendur við húsakynni spænsku lögreglunnar í Barcelona. Atkvæðatalningu í kosningunni um sjálfstæði Katalóníu er lokið og sögðu 90% þeirra sem greiddu atkvæði já við aðskilnaði. AFP

Lokatalningu atkvæða í kosningunni um sjálfstæði Katalóníu er lokið. Stjórnvöld í Katalóníu segja niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar vera þá að 90% þeirra sem greiddu atkvæði séu hlynntir því að Katalónía kljúfi sig frá Spáni.

Alls tóku 2.286.217 þátt í kosningunni, sem er 43% kosningabærra manna í Katalóníu, og sögðu 2.044.038 þeirra já við því að Katalónía lýsi yfir sjálfstæði.

BBC greindi þá frá því að fulltrúi spænskra stjórnvalda í Katalóníu, Enric Millo, hafi í dag beðið þá afsökunar sem slösuðust í aðgerðum lögreglu, sem reyndi að stöðva kosningarnar á sunnudag.

Millo sagði sökina þó liggja hjá stjórnvöldum í Katalóníu, fyrir að hafa staðið fyrir ólöglegum kosningum. „Þingið mun funda, þingið mun hittast,“ sagði Raül Romeva, utanríkisráðherra Katalóníu. „Allar tilraunir spænsku stjórnarinnar til að koma í veg fyrir að hlutir gerist hafa sýnt sig ekki bara gagnslausa heldur hafa þeir haft þveröfug áhrif," sagði Romeva í samtali við BBC.

Spænska stjórnin í Madrid hefur gefið út tilskipun sem auðveldar fyrirtækjum að flytja höfuðstöðvar sínar frá Katalóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert