Hvers vegna þögðu allir?

Harvey Weinstein og Meryl Streep.
Harvey Weinstein og Meryl Streep. AFP

Leikkonurnar Meryl Streep og Judi Dench eru meðal þeirra fjölmörgu sem hafa tjáð sig vegna frétta um kynferðislega áreitni af hálfu kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Framferði Weinstein er ekki bara gagnrýnt heldur það hvernig Hollywood leyfði þessu að viðgangast áratugum saman. Hvers vegna þögðu allir? 

Weinstein var rekinn frá eigin kvikmyndaveri á sunnudagskvöldið, þremur dögum eftir að New York Times birti frétt um að Weinstein, sem meðal annars framleiddi myndirnar The King's Speech og The Artist hafi beitt ungar konur sem dreymdi um frama í heimi kvikmyndanna kynferðislegri áreitni. 

Ashley Judd.
Ashley Judd. AFP

Leikkonurnar Ashley Judd og Rose McGowan voru meðal þeirra sem lýstu samskiptum sínum við Weinstein sem bauðst á sínum tíma til að hjálpa þeim í bransanum ef þær nudduðu hann eða samþykktu að horfa á hann í sturtu. Meðal þess sem kom fram var að hann hefði samið við átta konur til að koma í veg fyrir lögsókn gegn sér. Á síðustu dögum hafa fleiri konur stigið fram, þeirra á meðal fyrrverandi fréttakona, sem lýsti því hvernig Weinstein hefði króað sig af á veitingahúsi og fróað sér fyrir framan hana.

Leikkonan Rose McGowan.
Leikkonan Rose McGowan.

Fyrstu viðbrögð Weinstein við fréttaumfjölluninni voru að senda frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar á framferði sínu, sagðist ætla að leita sér aðstoðar og taka leyfi frá störfum meðan verið væri að rannsaka ásakanirnar. Örfáum klukkutímum síðar var komið annað hljóð í strokkinn, en þá tilkynnti Lisa Bloom, lögfræðingur hans, að hann hygðist fara í mál við The New York Times vegna umfjöllunar blaðsins og hótaði því einnig að birta ljósmyndir af nokkrum þeirra kvenna, sem borið hefðu hann sökum, í vinalegum stellingum með Weinstein eftir að kynferðislega áreitið hefði átt að eiga sér stað.

Judi Dench.
Judi Dench. AFP

Lance Maerov, einn stjórnarmanna The Weinstein Company, gagnrýndi Bloom harðlega fyrir framgöngu hennar og stuttu síðar hætti hún störfum sem lögfræðingur Weinstein. Weinstein-bræður eiga 42% hlut í The Weinstein Company og hefur The New York Times eftir Maerov að enn sé óljóst hvað verði um hlut Harvey. Að sögn Maerov komst stjórnin að því að Weinstein hefði brotið siðareglur fyrirtækisins á síðustu vikum, en vildi ekki nefna hvernig.

Í frétt Variety tímaritsins í gær kemur fram að Paramount Network hafi fallið frá því að  láta Weinstein stýra gerð tveggja þáttaraða, Waco og Yellowstone, á næstunni. 

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt framferði Weinstein eru leikararnir Seth Rogan, Lena Dunham og Patricia Arquette. Leikstjórinn James Gunn og framleiðandinn Judd Apatow.

Kallaði Weinstein guð

Streep, sem kallaði Weinstein guð í þakkarræðu á Óskarsverðlaunahátíð, birti í gær yfirlýsingu þar sem hún sagði að sér væri ofboðið eftir að hafa heyrt af svívirðunni og tók fram að það hafi ekki allir vitað af þessu. „Ég trúi því ekki að allir rannsóknarblaðamenn hafi ekki hirt um að skrifa þetta í áratugi,“ segir Streep í yfirlýsingu sem Huffington Post birti. 

George Clooney.
George Clooney. AFP

Leikkonan Judi Dench, sem hefur þakkað Weinstein frama sinn í kvikmyndum og sagði eitt sinn að hún væri með gervi-húðflúr með fangamarki hans á rassi sínum, segir í yfirlýsingu sem Newsweek birti að henni hryllti við og harðneitar að hafa haft hugmynd um þetta.

Leikarinn George Clooney segir að ekki sé hægt að verja gjörðir Weinstein með nokkru móti. Clooney segist hafa heyrt orðróm um að konur svæfu hjá Weinstein gegn hlutverki í kvikmyndum á tíunda áratugnum en hann segist ekki hafa trúað því. Heldur talið að þetta væri bull einhverra sem drægju hæfileika leikkvenna í efa.

En erfiða spurningin er um hvers vegna svo margir lögðu hart að sér við að verja orðspor kvikmyndaframleiðandans sem er einn áhrifamesti maðurinn í Hollywood áratugum saman.

Glenn Close.
Glenn Close. AFP

Leikkonan Glenn Close segir í  New York Times að hún hafi í mörg ár heyrt orðróm um óviðeigandi hegðun Weinstein „Harveyhefur alltaf hegðað sér prúðmannlega gagnvart mér en nú þegar orðrómurinn hefur verið staðfestur fyllist ég reiði og er mjög sorgmædd,“ segir hún í skriflegu svari til NYT.

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Samkvæmt frétt New York Times neituðu nánast allir þeir rúmlega fjörtíu starfsmenn í bandaríska afþreyingariðnaðinum að tjá sig við blaðið eftir að það birti fyrstu fréttina um málið í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert