Hótar að taka yfir stjórn Katalóníu

Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Rajoy, forsætisráðherra Spánar. AFP

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur hótað því að draga til baka sjálfstæði Katalóníu sem héraðs eftir að héraðið sagðist hafa umboð til að slíta sig frá Spáni.

Í sjónvarpsræðu sinni sagðist Rajoy hafa beðið leiðtoga Katalóníu um að staðfesta hvort þeir hafi lýst yfir sjálfstæði eða ekki.

Það er skilyrði fyrir því að spænsk stjórnvöld geti dregið sjálfstæði Katalóníu sem hérað til baka, samkvæmt grein 155 í stjórnarskránni. Hún felur í sér að stjórnvöld geti tekið yfir stjórn hálf-sjálfstæðra héraða. Slíkt hefur aldrei áður verið gert á Spáni. 

Carlos Puigdemont, forseti Katalóníu, undirritaði sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu í gær en beið með að láta hana taka gildi til að samningaviðræður gætu farið fram.  

Rajoy sagði að staðfesting á því hvort lýst hafi verið yfir sjálfstæði eða ekki muni veita almenningi þann skýrleika og það öryggi sem nauðsynlegt er að hafa við þessar aðstæður.

„Það er mikil þörf á því að binda enda á þetta ástand sem Katalónía er að ganga í gegnum – að snúa aftur sem fyrst til öryggis og rólegheita,“ sagði Rajoy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert