Eiginkonan farin og Paltrow og Jolie stíga fram

Leikkonurnar Asia Argento, Judith Godreche, Angelina Jolie og Gwyneth Paltrow …
Leikkonurnar Asia Argento, Judith Godreche, Angelina Jolie og Gwyneth Paltrow eru meðal þeirra kvenna sem hafa stigið fram og upplýst um kynferðislega áreitni af hálfu Harvey Weinstein. AFP

Leikkonurnar Angelina Jolie og Gwyneth Paltrow eru meðal þeirra kvenna sem hafa stigið fram og sakað Hollywood-kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni. Báðar segja að það hafi átt sér stað snemma á kvikmyndaferli þeirra.

Þær eru meðal fjölmargra leikkvenna sem saka Weinstein um áreitni. Í gær var Weinstein sakaður um nauðgun í grein sem birtist í New Yorker en hann neitar þeim ásökunum. Eiginkona hans, Georgina Chapman hönnuður, greindi frá því í gær að hún væri að fara frá honum.

Harvey Weinstein og Georgina Chapman.
Harvey Weinstein og Georgina Chapman. AFP

„Ég finn til með öllum þessum konum sem hafa tekist á við miklar kvalir vegna þessara gjörða hans, sem ekki er hægt að fyrirgefa,“ segir Chapman í viðtali við tímaritið People. Chapman er annar af stofnendum Marchesa-vörumerkisins. Hún er fædd í Bretlandi og er 41 árs. Þau Weinstein eiga tvö börn saman.

Barack og Michelle Obama.
Barack og Michelle Obama. AFP

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig eru forsetahjónin fyrrverandi, Barack og Michelle Obama, en dóttir þeirra var á námssamningi hjá Weinstein Company í New York fyrr á árinu. Þau segjast vera full ógeðs vegna nýlegra frétta um framkomu Harvey Weinstein. Þau segjast fagna hugrekki kvenna sem hafa stigið fram og greint frá kynferðislegri áreitni af hans hálfu.

Paltrow og Jolie sendu báðar tilkynningar frá sér til New York Times í gær en blaðið birti fyrstu fréttirnar um áreitnina í síðustu viku.

Jolie segir í tölvupósti sem hún sendi til NYT: „Ég varð fyrir vondri reynslu af hálfu Harvey Weinstein á mínum yngri árum og vegna þess ákvað ég að starfa aldrei með honum aftur og varaði aðra við því.“

Paltrow segir að eftir að Weinstein veitti henni aðalhlutverkið í Emma bauð hann henni upp í hótelsvítu sína þar sem hann lagði hendur sínar á hana og spurði hvort líkamsnudd væri ekki við hæfi.

„Ég var krakki. Ég var búin að innsigla samninginn og var skelfingu lostin,“ segir Paltrow í NYT. Hún segist hafa sagt þáverandi unnusta sínum, Brad Pitt, frá þessu og hann réðst á Weinstein. „Ég hélt að hann myndi reka mig,“ segir hún.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert