Búnir að ná Raqqa á sitt vald

Sýrlenskar hersveitir sem njóta stuðnings Bandaríkjahers hafa náð borginni Raqqa á sitt vald. BBC segir þar með hafa verið bundin enda á þriggja ára ógnarstjórn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í borginni, en hún var lengi eitt þeirra helsta  vígi í Sýrlandi.

BBC hefur eftir Talal Sello, talsmanni Sýrlensku lýðræðissveitanna (SDF) að átökunum sé nú lokið eftir fjögurra mánaða langt áhlaup á borgina. Nú sé unnið að því að hreinsa borgina, m.a. með leit að jarðsprengjum og kanna hvort einhverjar sellur Ríkis íslams leynist enn í Raqqa.

Talsmaður Bandaríkjahers tók varlegar til orða og sagðist bara geta staðfest að búið væri að ná yfiráðum yfir um 90% borgarinnar.

Greint var frá því fyrr í dag að hersveitirnar hefðu náð ríkisspítalanum í Raqqa á sitt vald.

Ríki íslams gerði Raqqa að höfuðstöðvum Kalífadæmis síns snemma árs 2014 og tóku þá upp öfgakennda túlkun á kenningum íslams. Liðsmenn samtakanna stóðu þar m.a. fyrir krossfestingum, aftökum og ýmsum pyntingum til að vekja ótta með þeim íbúum borgarinnar  sem voru andsnúnir samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert