Toback sakaður um kynferðislega áreitni

Kvikmyndaframleiðandinn James Toback hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni.
Kvikmyndaframleiðandinn James Toback hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni. AFP

38 konur hafa stigið fram og ásakað kvikmyndagerðarmanninn James Toback um kynferðislega áreitni.

Í umfjöllun The Los Angeles Times kemur fram að 38 konur hafi greint opinberlega frá áreitni af hendi Toback, sem spannar um 30 ára tímabil.

Toback, sem er 72 ára, hefur neitað allri sök og segir að hann hafi aldrei hitt neina af konunum sem um ræðir. Ef hann hefði einhvern tímann hitt þær „væri það í fimm mínútur og að hann muni ekkert eftir því“.

Toback er tiltölulega stórt nafn í kvikmyndaheiminum sem handritshöfundur og leikstjóri. Hann hefur hlotið eina tilnefningu til Óskarsverðlauna. Það var árið 1991 fyrir kvikmyndina Bugsy með Warren Beatty og Annette Bening í aðalhlutverkum. Hann hefur einnig leikstýrt Robert Downey Jr. í þremur kvikmyndum, þar á meðal Black and White og The Pick-Up Artist.

Nýjasta kvikmynd hans, The Private Life of a Modern Woman, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í síðasta mánuði. Sienna Miller fer með aðalhlutverk í myndinni.

Toback á frumsýningu nýjustu myndar sinnar, The Private Life of …
Toback á frumsýningu nýjustu myndar sinnar, The Private Life of a Modern Woman, á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í september. AFP

„Líffræðilega ómögulegt“

Í frásögn kvennanna í LA Times kemur meðal annars fram að Toback hafi fróað sér fyrir framan þær, nuddað sér upp við þær og spurt óviðeigandi spurninga um kynferðislega hluti og beðið þær um að framkvæma kynferðislegar athafnir.

Ein kvennanna segir frá því að henni hafi liðið eins og vændiskonu eftir samskipti sín við Toback. „Ég olli mér, fjölskyldu minni og vinum fullkomlegum vonbrigðum. Og ég átti ekki skilið að segja neinum frá.“

Toback segir í samtali við LA Times að síðastliðin 22 ár hafi það verið honum „líffræðilega ómögulegt“ að framkvæma þá hegðun sem konurnar lýsi, hann hafi verið að glíma við sykursýki og hjartavandamál og þurft að taka lyf sem takmarka getu hans.

Blaðamaður LA Times, Glenn Whipp, sem tók saman frásagnir kvennanna, hefur greint frá því á Twitter að frá því að greinin birtist í gær hafi fjöldi kvenna sem hafði samband við hann í upphafi tvöfaldast, úr 38 í 76.

Mikil vakning hefur átt sér stað í Hollywood, og í raun um heim allan, um umræðu um kynferðislega áreitni í kjölfar þess að fjöldi kvenna steig fram og sakaði kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni. 

Frétt BBC um Toback. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka