Helmingur áreittur kynferðislega

AFP

Um helmingur breskra kvenna og fimmtungur karla hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í vinnu eða í skóla. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar BBC.

Af þeim konum sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í skóla eða á vinnustað þögðu 63% þeirra um áreitnina og 79% karla gerðu það einnig. Rannsóknin var unnin af Com Res fyrir BBC og tóku rúmlega 2000 manns þátt. 

Ráðist var í rannsóknina í kjölfar frétta af kynferðislegri áreitni kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. 

Fjölmargir hafa greint frá kynferðislegri áreitni undir myllumerkinu MeToo eða Ég líka. 

Af þeim sem tóku þátt höfðu 53% kvenna upplifað kynferðislega áreitni og 20% karla. Allt frá óviðeigandi ummælum til kynferðislegs ofbeldis í skóla eða á vinnustöðum.

Ríflega fjórðungur hafði orðið fyrir barðinu á óviðeigandi bröndurum og einn af hverjum sjö hafði upplifað óviðeigandi snertingar á vinnustað eða í skóla.

Flestir urðu fyrir áreitni af hálfu yfirmanna sinna og ein af hverjum tíu konum hafði sagt upp starfi vegna þessa. 

Ein þeirra, Sarah Killcoyne sem er frá Cambridge, segir í viðtali við BBC News að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu tveggja manna þegar hún var enn í námi. Kennara þegar hún var unglingur og síðar var það prófessor hennar í háskóla sem beitti hana kynferðislegu ofbeldi.

Einn karlanna, sem vildi ekki koma fram undir nafni, sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu konu sem var yfirmaður hans í starfi. Hún hafi ítrekað talað um klæðaburð hans, hvort hann væri með loðna bringu og hvað það væri í fari kvenna sem höfðaði til hans.

Frétt BBC í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert