Fyrstu ákærur í Rússarannsókn

Robert Mueller.
Robert Mueller. AFP

Fyrstu ákærurnar í rannsókn Roberts Mueller á afskiptum rússneskra embættismanna af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra voru samþykktar af alríkisdómara í Washington DC í gær. CNN greinir frá þessu samkvæmt heimildum.

Ekki hefur verið upplýst hvað ákærurnar fela í sér eða hverjir eru ákærðir. Alríkisdómari fyrirskipaði að leynd myndi hvíla yfir ákærunum, segir í frétt CNN. Þar kom fram að þeir ákærðu eigi yfir höfði sér að vera handteknir fljótlega, jafnvel á mánudag.

Hvorki starfsmenn skrifstofu Mueller eða dómsmálaráðuneytisins vildu tjá sig um málið þegar AFP-fréttastofan leitaði eftir viðbrögðum við frétt CNN.

Mueller, sem er fyrrverandi yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) var fenginn til þess í maí að stýra rannsókn á meintum afskiptum Rússa en nokkrar rannsóknir voru þá þegar í gangi vegna málsins. Skömmu áður hafði Donald Trump Bandaríkjaforseti rekið James Comey úr starfi forstjóra FBI.

Mueller stýrði FBI frá 2001 til 2013 í forsetatíð repúblikanans George W. Bush og demókratans Baracks Obama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert