Ríkisstjórnin tekur völdin í Katalóníu

Spænska ríkisstjórnin hefur svipt Katalóníu sjálfstjórn og tekið yfir stjórn í héraðinu. Meðal annars hefur lögreglustjóri Katalóníu verið rekinn frá störfum auk annarra yfirmanna í lögreglunni.

Aðgerðirnar tóku gildi í morgun en í gær samþykkti þing Katalóníu að lýsa yfir sjálfstæði héraðsins. Varaforsætisráðherra Spánar, Soraya Saenz de Santamaria, hefur tekið við völdum í Katalóníu. 

Í gær tilkynnti forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy,  að þing Katalóníu yrði leyst upp og að leiðtogi héraðsins hefði verið sviptur völdum. Boðað hefur verið til kosninga í Katalóníu. 

Mótmælt var víða á Spáni í gærkvöldi og nótt. Ýmist með eða á móti sjálfstæði Katalóníu. Búist er við fjölmennum mótmælum bæði í Barcelona og Madríd í dag. Í Madríd verður mótmælt undir kjörorðinu Sameinaður Spánn og stjórnarskrá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert