Trump hvetur Xi til dáða

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvetur leiðtoga Kína, Xi Jinping, til þess að leggja sig allan fram og bregðast hratt við til þess að hægt verði að leysa kjarnorkudeiluna við Norður-Kóreu. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi þeirra í Peking í morgun. Trump varar við því að tíminn sé að renna hratt út.

Á þessum öðrum degi Trump í Peking gagnrýndi hann Kína fyrir einhliða og óhagstæðan viðskiptajöfnuð ríkjanna. En hann sagði Xi að það væri ekki við Kína að sakast. Ríkin tvö hafa undirritað viðskiptasamninga fyrir meira en 250 milljarða Bandaríkjadala á meðan Trump hefur dvalið í landinu.

Xi Jinping og Donald Trump.
Xi Jinping og Donald Trump. AFP

Xi tók á móti Trump í höll alþýðunnar við Tiananmen-torg í dag og fór vel á með þeim Trump og Xi. Trump lá hins vegar ekki á þeirri skoðun sinni að hann vænti þess að Kína setti aukinn kraft í að stöðva áætlanir Norður-Kóreu varðandi kjarnorkuvopnavæðingu.

 „Við verðum að bregðast hratt við. Vonandi mun Kína bregðast hraðar og á áhrifaríkari hátt við þessu vandamáli en nokkur annar,“ sagði Trump þegar hann þakkaði Xi fyrir framlag hans í að auka viðskiptaþvinganir við Pyongyang.

„Kína getur ráðið bót á þessu vandamáli á auðveldan og fljótlegan hátt og ég bið Kína og ykkar stórkostlega forseta að vinna vonandi hratt að þessu,“ bætti Trump við.

„Því ég veit eitt með vissu um forseta ykkar. Ef hann leggur sig fram þá mun það gerast. Það er enginn efi um það.“

Höll alþýðunnar.
Höll alþýðunnar. AFP

Bandarísk stjórnvöld telja að efnahagsleg áhrif Kína yfir Norður-Kóreu séu lykillinn að því að fá yfirvöld í Pyongyang til þess að hægja á kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun sinni.

Xi, sem hefur ítrekað hvatt Bandaríkin og N-Kóreu til þess að setjast niður og ræða hvernig hægt er að leysa deiluna á friðsamlegan hátt, sagði Trump að þeir ættu að styrkja samskipti og samstarf ríkjanna varðandi málefni sem varða Kóreuskagann.

Trump, sem mun væntanlega eiga fund með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, á APEC-ráðstefnunni í Víetnam um helgina, beindi einnig orðum sínum til Rússa sem eiga í efnahagslegum samskiptum við N-Kóreu. Hann biður þá einnig um að taka þátt í að hafa taumhald á Norður-Kóreu í þessari erfiðu stöðu sem blasir við.

Donald Trump og Xi Jinping takast í hendur í höll …
Donald Trump og Xi Jinping takast í hendur í höll alþýðunnar í Peking. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert