Segir múslima ekki 100% mennska

Martin Strid flutti ræðu sína fyrr í dag á landsfundi …
Martin Strid flutti ræðu sína fyrr í dag á landsfundi Svíþjóðardemókrata. Skjáskot/SVT

Martin Strid, sveitarstjórnarmaður fyrir Svíþjóðardemókrata, sagði á landsfundi flokksins í dag að múslimar væru ekki 100% mennskir. Jimmie Åkesson, formaður flokksins, hefur eftir þessi ummæli sagt að Strid verði bolað úr flokknum hætti hann ekki sjálfviljugur og þá hafa fleiri hátt settir í flokknum gagnrýnt ummælin. Þá hefur Strid verið kærður til lögreglunnar fyrir ummæli sín.

Strid sagði í ræðu sinni að það væri skali frá 0 upp í 100 og á öðrum endanum væri maður 100% manneskja en á hinum endanum væri maður 100% múhameðstrúar. Sagði Strid að allir múslimar væru einhvers staðar á þessum skala og að þeir sem væru félagar í samtökunum sem þekkt eru sem Ríki íslams væru eins langt frá því að vera mennskir og hægt væri. Þá sagði hann að þeir sem létu af íslamstrú sinni væru aftur nálægt því að verða 100% mennskir.

Strid hélt áfram og sagðist vilja frelsa múslima frá íslamstrú og fá þá til að ganga til liðs við Svíþjóðardemókrata. Ræðan var send út í sænska ríkissjónvarpinu SVT.

Haft er eftir Richard Jomshof, ritara flokksins, að ummæli Strid séu rasísk. Sagði hann að Svíþjóðardemókratar væru gagnrýnir á alls konar  lífsviðhorf, en að ekki mætti brjóta á mannréttindum fólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert