Flóttamenn ganga kaupum og sölum í Líbíu

Talið er að um 700.000 flóttamenn frá Vestur-Afríku séu í …
Talið er að um 700.000 flóttamenn frá Vestur-Afríku séu í Líbíu. AFP

Afrískir flóttamenn ganga kaupum og sölum í Líbíu. Bandaríski fjölmiðillinn CNN varpaði ljósi á þessa sorglegu staðreynd í umfjöllun sinni fyrr í mánuðinum. Fréttamenn með faldar myndavélar fóru þá inn á uppboð, rétt utan við höfuðborgina Trípólí, þar sem ungir menn voru til sölu og fylgdust með.

„Þarf einhver grafara? Þessi er grafari, stór og sterkur, hann getur grafið,“ hefur CNN eftir þrælasölumanni. „Hvað fæ ég, hvað fæ ég?“ spyr hann – og fær að endingu tilboð. „Grafarinn“ fær nýjan „húsbónda“ og fylgir honum heim.

Þessi umfjöllun CNN staðfesti það sem flóttamenn sem hafa farið í gegnum Líbíu hafa sagt IOM, stofnun Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga, sem í apríl síðastliðnum benti á að fjöldi flóttamanna frá Vestur-Afríku hefðu lýst því að hafa verið seldir eða boðnir upp í bílskúrum og bílastæðum í borginni Sabha í sunnanverðri Líbíu.

Þrælahaldi í Líbíu hefur verið mótmælt víða um heim. Þessi …
Þrælahaldi í Líbíu hefur verið mótmælt víða um heim. Þessi mynd er tekin á Sergels-torgi í Stokkhólmi s.l. laugardag. AFP

Othman Belbeisi, verkefnisstjóri IOM í Líbíu, sagði við það tilefni að fólk væri keypt fyrir 200-500 dollara og væri oft í haldi í tvo til þrjá mánuði.

„Flóttamenn eru seldir eins og hver önnur markaðsvara. Mansal er að verða sífellt algengara og smyglhringirnir í Líbíu verða sterkari og sterkari,“ er haft eftir Belbeisi.

Löng og hættuleg ferð

Flóttafólkið, sem margt kemur frá Nígeríu, Senegal eða Gambíu, ferðast í norðurátt til Líbíu, til þess að eygja von um að komast sjóleiðina frá Líbíu til Ítalíu, en yfir 150.000 einstaklingar hafa lagt í þá sjóferð á hverju ári, síðustu þrjú ár.

Fleiri en 3000 flóttamenn hafa drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið á þessu ári, samkvæmt tölum frá IOM. En margir láta lífið löngu áður en þeir komast um borð í bát.

Úr flóttamannaskýli á vegum stjórnvalda í Líbíu.
Úr flóttamannaskýli á vegum stjórnvalda í Líbíu. AFP

Á ferðalaginu að strönd Miðjarðarhafsins leynast nefnilega margar hættur, ekki síst mansals- og smyglhringir, sem mæta flóttamönnunum með alvæpni, neyða karla til vinnu, nauðga konum og selja í vændi.

Senegalskur flóttamaður lýsti því við IOM að honum hafi verið haldið föngnum í húsi í Líbíu ásamt um 100 öðrum einstaklingum, sem voru neyddir til að hringja í fjölskyldur sínar og fá þær til að senda lausnargjald. Fáist lausnargjaldið ekki greitt, eru fangarnir stundum drepnir.

Hér að ofan má sjá umfjöllun mbl.is frá því í september um skýrslu UNICEF og IOM, sem fjallar hvað mæt­ir börn­um og ung­menn­um á flótta yfir Miðjarðar­hafið.

Stjórnvöld úrræðalaus

Stjórnvöld í Trípólí, sem studd eru af Sameinuðu þjóðunum, hafa lýst því yfir að ásakanir og ábendingar um að þrælahald viðgangist innan ríkisins séu til rannsóknar.

Þau eru þó ansi vanmáttug er kemur að því að bregðast við vandanum, enda hafa hin alþjóðlega viðurkenndu stjórnvöld Líbíu ekki stjórn yfir öllu skilgreindu landsvæði ríkisins, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Þetta kort sýnir hvernig landsvæðið skiptist á milli fylkinga í …
Þetta kort sýnir hvernig landsvæðið skiptist á milli fylkinga í Líbíu. Ljósmynd/Skjáskot af vef Liveuamap

Hlutar landsins eru enn undir stjórn skæruliðahópa, íslamista og annarra fylkinga í kjölfar seinna borgarastríðsins í landinu, sem braust út árið 2014 og stendur í raun enn yfir, þó að átökin hafi minnkað.

Ríkisstjórn Líbíu segir að ríkið þurfi meiri stuðning alþjóðasamfélagsins til þess að takast á við vandann, en í yfirlýsingu frá stjórnvöldum í kjölfar umfjöllunar CNN kemur fram að Líbía sé að ganga í gegnum erfitt skeið, sem hafi áhrif á líbíska borgara rétt eins og flóttamenn innan ríkisins.

„Við segjum á ný, að það verður að takast á við þau vandamál sem leiða til þess að fólk rekst frá heimalöndum sínum, vinna í þeim og finna lausnir,“ segir í yfirlýsingu stjórnvalda í Trípólí.

Þrælahaldi í Líbíu var mótmælt í frönsku borginni Marseille á …
Þrælahaldi í Líbíu var mótmælt í frönsku borginni Marseille á laugardag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert