Áhöfn flugvélar sá eldflaugina

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu fylgist spenntur með eldflaugarskotinu á miðvikudag.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu fylgist spenntur með eldflaugarskotinu á miðvikudag. AFP

Áhöfn flugvélar Cathay Pacific-flugfélagsins varð vitni að eldflaugarskoti Norður-Kóreu í síðustu viku. Félagið staðfestir í samtali við BBC að áhöfnin hafi tilkynnt hvað hún sá og að ekki standi til að breyta flugleiðum félagsins þrátt fyrir uppákomuna. Áhöfnin segist hafa séð er flugskeytið var að koma aftur inn í andrúmloft jarðar yfir Japanshafi eftir að hafa verið skotið á loft frá Norður-Kóreu á miðvikudagsmorgun.

Staðfest hefur verið að þann dag gerðu Norður-Kóreumenn tilraun með eldflaugaskot og hafa stjórnvöld þar í landi fullyrt að flaugin gæti náð til Bandaríkjanna. Ekki er talið að kjarnaoddur hafi verið á flauginni í tilraunaskotinu.

Atvikið hefur aukið enn á ólgu á svæðinu en í dag hófst heræfing Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert