Stærsta heræfing á Kóreuskaga frá upphafi

Bandrísk herþota af gerðinni F-15C á flugi yfir Suður-Kóreu. Bandaríkin …
Bandrísk herþota af gerðinni F-15C á flugi yfir Suður-Kóreu. Bandaríkin og Suður-Kórea standa nú fyrir stærstu sameiginlegu heræfingu sinni frá upphafi. AFP

Bandaríkin og Suður-Kórea hófu í morgun sameiginlega heræfingu, sem er sú stærsta sem ríkin hafa staðið fyrir frá upphafi. Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa fordæmt æfinguna og segja hana hreina og klára ögrun sem geti komið af stað kjarnorkustyrjöld.

Heræfingin stendur yfir í fimm daga og hefur fengið heitið Vigil­ant Ace. Þar munu um 230 herþotur taka þátt, meðal ann­ars vél­ar af teg­und­inni F-22 Raptor.

Norður-Kórea skaut í lok síðustu viku á loft sínu stærsta og öflugasta flugskeyti til þessa og segja ráðamenn þar í landi flugskeytið nægilega öflugt til að ná til Bandaríkjanna. Hald­inn var neyðar­fund­ur í ör­ygg­is­ráði Sam­einuðu þjóðanna vegna þess þar sem Banda­rík­in hvöttu þjóðir heims­ins til að slíta öll tengsl við Norður-Kór­eu.

Lindsey Graham, háttsett­ur banda­rísk­ur öld­unga­deild­arþingmaður úr röðum re­públi­kana, hefur varað við því að í hvert sinn sem stjórn­völd í Norður-Kór­eu geri eld­flauga- eða kjarn­orku­tilraun­ir fær­ist Banda­rík­in skrefi nær því að hefja hernaðaraðgerðir gegn N-Kór­eu. 

 „Ef það verður gerð kjarn­orku­tilraun neðanj­arðar, þá skuluð þið búa ykk­ur und­ir mjög al­var­leg viðbrögð frá Banda­ríkj­un­um, “ sagði Gra­ham í þætt­in­um Face the Nati­on á CBS-sjón­varps­stöðinni. 

Gra­ham tek­ur þar með í svipaðan streng og H.R. McMa­ster, þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi Banda­ríkja­for­seta, sem sagði á laug­ar­dag að lík­urn­ar á stríði við N-Kór­eu ykjust með hverj­um degi sem líður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert