Hlusta eigi á konur sem ásaka Trump

Nikki Haley.
Nikki Haley. AFP

Hlusta verður á konur sem sakað hafa Donald Trump Bandaríkjaforseta um kynferðisofbeldi. Þetta sagði Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, í viðtali á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS í gær.

Fram kemur í frétt AFP að ummæli Haleys séu á skjön við afstöðu Hvíta hússins sem er á þá leið að forsetakosningarnar á síðasta ári hafi verið síðasta orðið varðandi slíkar ásakanir. Á annan tug kvenna hefur sakað Trump um kynferðislega áreitni sem átt hafi sér stað áður en hann tók við embætti forseta en hann hefur vísað þeim ásökunum á bug.

„Hlusta ber á konur sem ásaka hvern sem er [um kynferðisofbeldi]. Það ber að hlusta á þær og taka á málum þeirra,“ sagði Haley spurð hvernig ætti að bregðast við ásökunum kvenna í garð Trumps. Hún bætti við að hún væri þeirrar skoðunar að þær konur sem teldu sig hafa orðið fyrir ofbeldi ættu rétt á að segja frá því.

Spurð hvort hún teldi að forsetakosningarnar hefðu jarðað þessa umræðu sagði Haley að það væri kjósenda að ákveða það. „Ég geri mér grein fyrir því að hann var kosinn en ... konur ættu alltaf að vera í aðstöðu til að segja frá og við ættum öll að vera reiðubúin að hlusta á þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert