Fyrirmynd Breivik fyrir dómi

„Leysigeislamaðurinn“ John Ausonius.
„Leysigeislamaðurinn“ John Ausonius. Wikipedia/Towpilot

Réttarhöld yfir „leysi­geislamanninum“, sænska fjöldamorðingjanum John Ausonius, hefjast í Þýskalandi í dag. Ausonius er ein helsta fyrirmynd norska vígamannsins Anders Breivik en báðir aðhyllast hvíta öfgastefnu. Ausonius er sakaður um að hafa myrt manneskju sem lifði af dvölina í útrýmingarbúðum nasista, Auschwitz, í Frankfurt árið 1992.

„Leysi­geislamaður­inn“ skaut á 11 inn­flytj­end­ur, sem all­ir voru dökk­ir á hör­und, af handa­hófi í Stokk­hólmi og í Upp­söl­um á ár­un­um 1991 og '92 og var dæmd­ur í lífstíðarfang­elsi árið 1995. Eitt fórn­ar­lamba Ausonius lést en 10 særðust. Auk þess að vera dæmd­ur fyr­ir morð og morðtil­raun­ir var hann dæmd­ur fyr­ir níu rán. Hann notaði riff­il með leysi­geislamiðun við árás­irn­ar en síðar skipti hann riffl­in­um út fyr­ir skamm­byssu.

Ausonius sagðist hafa fengið inn­blást­ur af því að fylgj­ast með flokkn­um Nýju lýðræði sem var mjög þjóðern­is­sinnaður og starfaði í Svíþjóð á þess­um tíma, und­an­fari Svíþjóðardemó­krata. Hann er fyrirmynd margra hryðjuverkamanna sem hafa framið voðaverk sín einir, svonefndir „lone wolf“, líkt og Breivik gerði en hann varð 77 að bana í Noregi árið 2011. John Ausonius, sem er 64 ára gamall, afplánar lífstíðardóm í Svíþjóð fyrir morðin sem hann framdi í Stokkhólmi og Uppsölum. Að eigin sögn myrti hann fólkið til þess að hræða það í þeirri von að það myndi forða sér úr landi og um leið koma í veg fyrir að aðrir kæmu til Svíþjóðar.

Nú 17 árum síðar mun Ausonius mæta fyrir rétt að nýju, að þessu sinni í Frankfurt, segir í frétt Guardian í dag. Þar kemur fram að þetta dragi mjög úr líkum á að Ausonius fái reynslulausn.

8. febrúar 1992, þegar hann var á flótta undan sænsku lögreglunni, heimsótti Ausonius veitingastað við Opernplatz í Frankfurt. Tveimur vikum síðar kom hann þangað aftur og sakaði starfskonu í fantahengi staðarins, Blönku Zmigrod, um að hafa stolið Casio-reiknivél úr vasa hans.

Deilur þeirra stigmögnuðust og endaði með því að Ausonius æpti að henni: „Við hittumst aftur,“ þegar hann yfirgaf staðinn. Næsta kvöld var Zmigrod skotin af stuttu færi þar sem hún var á heimleið frá vinnu. Morðinginn var hettuklæddur og á reiðhjóli.

Í nýrri heimildarmynd sem birt er á vef Aftonbladet í morgun kom fram í fyrsta skipti að Zmigrod, sem var 68 ára gömul þegar hún var myrt, hefði lifað af dvöl í fernum fangabúðum nasista í seinni heimstyrjöldinni. Þar á meðal Auschwitz.

Sænski rannsóknarlögreglumaðurinn Stefan Bergquist hefur greint frá því að Ausonius hafi brosað og verið alsæll þegar hann frétti það við yfirheyrslu árið 1993 að Zmigrod hefði verið gyðingur.

Ein af ástæðunum fyrir því að morðið í Frankfurt er tekið upp að nýju er sú að talið er að leysigeislamorðinginn sé fyrirmynd þýska nýnasistahópsins Nationalsozialistischer Untergrund sem framdi nokkur morð á árunum 2000 og 2007.

Líkt og Ausonius skutu félagar í NSU fórnarlömb sín af stuttu færi og rændu banka til að fjármagna hryðjuverkastarfsemi sína.

Að sögn Mattias Gardell, prófessors við háskólann í Uppsölum, er Ausonius fyrsti hvíti þjóðernissinninn í Evrópu sem beitti „lone wolf“-aðferðinni við voðaverk sín. Ausonius var mjög áhugasamur um starfsemi öfgasamtaka í Svíþjóð, segir sænski blaðamaðurinn Gellert Tamas í viðtali við Guardian. Bók hans um Ausonius, Lasermannen, hefur notið gríðarlegra vinsælda víða um heim. En af ásettu ráði gekk hann aldrei til liðs við slík samtök enda vissi hann að það myndi leiða lögreglu á slóð hans. 

Norski rasistinn Anders Breivik vísaði beint í leysigeislamanninn við réttarhöldin og sagði hann fyrirmynd sína. Aldrei hefur verið upplýst hvort hann átti við Ausonius eða hermikrákuna, Peter Mangs.

Þegar Breivik var sakaður um að vera andstæðingur fjölmenningar fyrir rétti sagði hann að óréttlæti sem þetta hefði skapað menn eins og sig og leysigeislamanninn í Svíþjóð.

Faðir Ausonius var sviss­nesk­ur en móðir hans þýsk. Hann flutti síðar sem inn­flytj­andi til Svíþjóðar.

Hann varð fyr­ir einelti í skóla fyr­ir að vera dökk­hærður með brún augu og þegar hann komst á full­orðins­ár fór hann að lita hár sitt ljóst og notaði blá­ar augn­lins­ur. Eins breytti hann nafni sínu í John Ausonius en hann hét áður Wolfgang Al­ex­and­er Zaugg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert