Hundur fékk einstaka gervifætur

Um ári eftir að hann var limlestur fyrir að naga skó ærslast Cola um ströndina á nýjum fótum, bognum gervifótum í anda þeirra sem Oscar Pistorious hljóp á.

Cola var flækingshundur og var nærri drepinn í Bangkok á Taílandi í fyrra er maður hjó af honum framfæturna fyrir að naga skóinn hans. 

Hann var fluttur til dýralæknis og bjargaði sú heimsókn lífi hans, þar sem hann var framfótalaus varð hann að hoppa um eins og kengúra. 

En nú er staðan önnur. Cola dillar rófunni á meðan hann stekkur um sandinn á gervifótunum sínum. Fæturnir eru léttir og sérsmíðaðir fyrir hinn orkumikla hund sem elskar að hlaupa um. 

John Dalley á nú Cola og það er hann sem stofnaði samtökin Soi Dog, hjálparsamtök fyrir flækingshunda. Dalley og eiginkona hans, sem nú er látin, björguðu Cola eftir árásina í Bangkok. Hann býr nú í Phuket og lífið leikur við hann. 

„Það er í raun alveg magnað hversu mikla aðlögunarhæfni hundar hafa og hversu viljugir þeir eru að fyrirgefa,“ segir hann á meðan Cola, sem er mannelskur þrátt fyrir raunir sínar, hringar sig við fætur hans. 

Cola er vissulega ekki fyrsti hundurinn sem fær gervifætur en í frétt AFP kemur fram að hann sé sá fyrsti sem fær fætur sem þessa; nokkurs konar plastblöð sem bogna undan álagi. Fæturnir eru eins og C í  laginu.

Bæklunarskurðlæknirinn Bendt Soderberg hannaði fæturna fyrir Cola. Soderberg er Svíi sem starfar á sjúkrahúsi í Phuket. 

„Það sem við vildum reyna að ná var eitthvað sem væri ekki of þungt og gæti verið sveigjanlegt svo þegar hann hoppar um væru þeir ekki alveg stífir,“ segir Teddy Fagerstrom, skurðlæknir og samstarfsmaður Soderbergs.

Hingað til hefur teymi hans aðeins hannað fætur fyrir mannfólk. Þeir vona að mál Cola eigi eftir að vekja athygli Taílendinga á gæða gervifótum sem nú er hægt að fá. 

Hinn orkumikli hundur er vissulega heppinn. Hann kann vel að meta athyglina sem hann fær sem „andlit“ þessara gervifóta á Taílandi. „Cola skammast sín ekki fyrir að hafa misst útlim. Hann hagar sér bara eins og hann hefur alltaf gert,“ segir Fagerstrom. „Hann er gott dæmi um það að hafa góða fætur getur orðið til þess að þú getur haldið áfram að hlaupa og njóta lífsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert